143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

stuðningur við fjárlagafrumvarpið.

[10:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Sú athyglisverða staða er nú komin upp að við höfum fengið fjárlagafrumvarp fyrir Alþingi sem virðist ekki njóta þingmeirihluta. Forsætisráðherra var mjög fljótur, reyndar svo fljótur að afneita fjárlagafrumvarpinu að hann gerði það áður en búið var að mæla fyrir því. Svo höfum við heyrt á síðasta sólarhring þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hv. þingmenn Elínu Hirst og Brynjar Níelsson, og svo hæstv. heilbrigðisráðherra í sjöfréttum sjónvarps í gærkvöldi, öll tala fyrir auknum fjárveitingum til Landspítalans.

Því er auðvitað óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi ekki haft á bak við sig umboð félaga sinna í ríkisstjórnarmeirihlutanum þegar hann lagði fjárlagafrumvarpið fram. Það er greinilegt að þessir þingmenn allir saman og hæstv. forsætisráðherra standa ekki að baki þeim niðurskurðaraðgerðum sem hæstv. fjármálaráðherra gerir ráð fyrir að bitni á Landspítalanum.

Hafði hæstv. fjármálaráðherra ekki umboð þingflokks Sjálfstæðisflokksins? Hvernig var undirbúningi fjárlagafrumvarpsins hagað af hálfu ríkisstjórnarinnar?

Hæstv. forsætisráðherra hefur nú gefið upp boltann með það að æskilegra sé að stjórnarandstaðan forgangsraði í þágu heilbrigðisþjónustu í landinu en fjármálaráðherrann og ég get verið sammála hæstv. forsætisráðherra um að það sé að sjálfsögðu skynsamlegra að við sjáum um forgangsröðun í þágu velferðarþjónustu en hæstv. fjármálaráðherra. En í ljósi þess spyr ég: Er þá hæstv. fjármálaráðherra líka tilbúinn til þess að ræða við okkur af einhverju viti um að falla frá þeim áformum sem hann hefur haft um að minnka álögur á þá sem best eru í færum til að borga þannig að hægt sé raunverulega að mæta þörfum Landspítalans fyrir auknar fjárveitingar?