143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að þeirri spurningu verði í sjálfu sér ekkert svarað í eitt skipti fyrir öll. Það getur vel verið að við þurfum að vera mjög sveigjanleg í gegnum þetta ferli og velta því fyrir okkur hvernig við best getum leitt fram nauðsynlega niðurstöðu. Ég hef alltaf viljað forðast þá hugmyndafræði að íslensk stjórnvöld hafi einhverjar skyldur til að setjast niður og semja um eitthvað vegna þess að íslenska ríkið skuldar ekki þá fjármuni sem hér er um að ræða, sérstaklega skuldar ríkið ekki það sem er inni í þrotabúunum.

Af þeirri ástæðu finnst mér eðlilegt að það geti verið í sífelldri skoðun hvernig við þróum lausnirnar en ekki er hægt að úttala sig um það í þessum ræðustól. Mér líkar hins vegar ekki alveg sá tónn sem ég heyri frá hv. þingmanni sem kemur hingað upp nánast eins og hann sé talsmaður þeirra sem eru að bíða eftir að fá eignir sínar. (ÁPÁ: Þetta er ómaklegt, þetta er ómaklegt.) Nei, vegna þess að ég … (ÁPÁ: Það er eðlilegt að ráðherra geti svarað því með hvaða hætti hann ætlar að …) Já, þarna talar ráðherra (Forseti hringir.) úr fyrri ríkisstjórn og þingmaður sem studdi þá ríkisstjórn sem hafði verkefnið í fanginu í fögur ár og leysti það alls ekki. Það getur vel verið að (Forseti hringir.) menn séu orðnir óþolinmóðir núna en við skulum á þessum viðkvæmu tímum sammælast um að reyna að leiða fram (Forseti hringir.) lausn í sameiningu.