143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

framganga lögreglunnar gegn mótmælendum í Gálgahrauni.

[15:39]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um atburði sem urðu hér fyrir sunnan borgina í Gálgahrauni fyrir nokkru. Ég ætla ekki að tala um veginn sjálfan og ekki tala um lagalega óvissu sem fólk greinir á um. Ég ætla heldur ekki að tala um að ekki sé hægt að stöðva framkvæmdir þegar framkvæmdir eru hafnar vegna réttaróvissu, og ég tala nú ekki um framkvæmdir eins og þessar sem eru óafturkræfar.

Svo vill til að bæði vegalagningin og lögreglan heyra undir innanríkisráðherrann, en það eru atriði sem snúa að framgöngu lögreglunnar í þessu máli sem mig langar að spyrja um. Mér fannst hún mjög harkaleg og ég tel að mörgum öðrum hafi fundist það. Þá er ég ekki að gera athugasemd við að einhverjir einstaklingar séu handteknir, ef handtaka á fólk á náttúrlega að handtaka hvern sem er, hvort sem hann heitir Ómar Ragnarsson, Valgerður Bjarnadóttir eða eitthvað annað, ég er ekki að tala um það.

Ég er að tala um það að mörgum okkar kom þetta þannig fyrir sjónir að framganga hjá lögreglunni væri svolítið sérkennileg í máli sem þessu. Mig langar að spyrja ráðherrann: Hvernig er ákvörðun um þetta tekin? Var ráðuneytið eitthvað inni í þeirri ákvörðun, hvernig þarna ætti að ganga fram, eða var þetta eingöngu á ábyrgð — þá geri ég ráð fyrir lögreglu höfuðborgarsvæðisins sem fæst við mál af þessu tagi?