143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[11:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum sammála ríkisstjórninni um að það sé skynsamlegt að lækka skatta á fólk í miðtekjuþrepi. Það er ekki sama hvernig það er gert. Leiðin sem við leggjum til felst í því að hækka upphafsþrepið úr 250 þús. kr. í 350 þús. kr. Leið ríkisstjórnarinnar tryggir þeim sem hafa hæstu tekjurnar mestan hluta af 5 milljarða lækkun á tekjuskatti. Þessi leið tryggir fólki með lægri meðaltekjur allan þorra ávinningsins. Allir á tekjubilinu 250 þús. kr. til 600 þús. kr. munu njóta meira með þessari útfærslu heldur en útfærslu ríkisstjórnarinnar. Þannig að þetta er skynsamleg leið. Hún hentar sérstaklega þeim hópum sem hæstv. fjármálaráðherra vísaði til áðan, fólkinu sem hefur þurft að axla ríkari byrðar á undanförnum árum og er býsna mikið sviðið í tekjutengingum vítt og breitt í bótakerfinu.