143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[12:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá sem heldur að lagasetning á kjaradeilu feli ekki í sér fordæmi hefur ekki komið mikið að gerð kjarasamninga. Það var sagt hér í apríl að Herjólfur væri ekki fordæmi. Hver er afleiðingin? Menn eru rétt einum mánuði síðar komnir með aðra neyðaraðgerð og kannski enn eina í næstu viku.

En einmitt vegna næstu viku þá er þess getið í áliti minni hlutans að mikilvægt sé að forsætisráðherra gefi um það yfirlýsingu í tengslum við þetta að eftir að þingið er farið heim verði ekki sett bráðabirgðalög á aðrar kjaradeilur. Deilir formaður nefndarinnar því ekki að nauðsynlegt sé, ef setja eigi lög á enn fleiri verkföll, meira að segja áður en þau hefjast, að þingið verði kvatt saman til að grípa til þeirra ráðstafana, ef svo óhönduglega tekst til við stjórn landsins?