143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[13:04]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki hlustað á ræðu mína. Ég sagði mjög skýrt að það geti komið upp tilvik þar sem lagasetning er réttlætanleg. Þá þurfa menn að hafa fylgt samningsferlinu alla leið og það er ekki búið í þessu tilfelli. Það er einfaldlega þannig. Menn skulu ekkert reyna að búa til einhvern annan sannleik um það. Til að mynda hefur ekki komið miðlunartillaga frá ríkissáttasemjara. Við getum ekki bara verið með eitthvert kalt mat hérna, ráðherrar og alþingismenn, um það hvenær nóg sé komið.

Það þarf að vera formlegra. Við þurfum að fylgja ákveðnum formalisma í þessu vegna þess að formalisminn ver einstaklingana.

Annað sem ég vil líka nefna er það að í andsvari hv. þingmanns kristallast viðhorfið gagnvart því að verkfallsrétturinn eigi í raun ekki rétt á sér. Það sem hann sagði í fyrri hluta andsvars síns staðfestir það sem ég óttaðist mest, staðfestir þann ótta sem ég var að lýsa í ræðu minni áðan, þ.e. að menn telji verkfallsréttinn ekki eiga rétt á sér undir nokkrum kringumstæðum, hvort sem um er að ræða 5 þúsund manns eða 100 þúsund.

Það er sá samanburður sem ég var að gera hér áðan á þessum tveimur málum, þ.e. að ríkisstjórnin verður þá, ef hún telur að verkfall eigi ekki rétt á sér undir einhverjum ákveðnum kringumstæðum og til þess að ganga svona glaðbeitt til verka við að beita lagasetningu á verkföll, alla vega að senda út til þeirra sem eiga þessa samningsstöðu, eiga þennan rétt, hver hann sé þá í raun. Úr honum er mjög lítið gert í máli hv. þingmanns, mjög lítið gert. Ég tel mig hafa farið fullnægjandi yfir það hver munurinn er á Íslandi árið 2014, í ólgusjó umbrota á vinnumarkaði, kjaradeilur víða, verkfallshrina í gangi, eða árið 2010, þegar ekkert slíkt var í gangi, ekki neitt. Ég fór ágætlega yfir það í ræðu minni áðan og tel mig ekki þurfa að gera það betur.