144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ansi sammála mörgu í þessu ágæta svari hv. þingmanns, t.d. því að ég gef engan afslátt af þeirri kröfu að við höldum áfram að reyna að vinna bug á unglingadrykkju. Hvað varðar barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er ég að sjálfsögðu fullkomlega hlynntur honum og finnst reyndar óþarfi að taka það sérstaklega fram, ef út í það er farið.

Sömuleiðis vil ég árétta að ég tel ekki að það sé vegna aukins aðgengis sem þessi árangur hefur náðst varðandi unglingadrykkju. Það sem ég er að benda á er að það eru aðrir þættir en þessir sem stjórna henni.

Hv. þingmaður benti réttilega á að einn af höfuðsigrunum þegar kemur að unglingadrykkju felst í því að fá krakka til þess að bíða. Það er líf eftir táningsárin og það er allt í lagi að bíða til tvítugs og jafnvel lengur áður en maður fer að fikta við áfengi. Sá boðskapur held ég að sé mjög mikilvægur vegna þess að fólk er forvitið, fólk vill prófa hluti, sérstaklega ef það breytir eitthvað hugarfarinu. Það er þannig hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki eðlilegt og í raun ekki skipta öllu að neysla aukist, heildarneysla að öllum meðtöldum, ef áfengisneyslan sjálf hefur minni neikvæð áhrif.

Nú vitum við að því yngra sem fólk er þegar það byrjar að drekka því líklegra er að vandamál komi upp í kjölfarið og þau verða alvarlegri eftir því sem fólk er yngra. Ef fólk byrjar nógu gamalt, þegar það er komið á svokallaðan fullorðinsaldur, um tvítugt eða rúmlega það, minnka líkurnar á því að teljandi vandamál hljótist af neyslunni, vandamál eins og að flosna upp úr vinnu eða skóla, beita ofbeldi eða verða fyrir því og annað því um líkt. Telur hv. þingmaður í ljósi þessa það vera höfuðatriði að líta á heildarneysluna ef við getum gefið okkur að samhliða aukinni heildarneyslunni hækki aldur þess fólks sem neytir áfengis?