144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:52]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Aðeins áður en ég fjalla efnislega um frumvarpið vil ég lýsa sérstakri undrun minni yfir því að fjölmargir stjórnarandstöðuþingmenn hafa óskað eftir nærveru heilbrigðisráðherra. Þetta frumvarp er þingmannafrumvarp. Málefnið heyrir ekki einu sinni undir heilbrigðisráðherra og ráðherrann sem er reglulega krafinn svara hér mun bara láta skoðun sína í ljós við atkvæðagreiðslu um málið. En hér hefur verið málþóf, hér hafa verið ræður um fundarstjórn forseta í þeim tilgangi að fá til sín ráðherra sem hefur ekki með málaflokkinn að gera. Eins og ég segi sjálfur: Frumvarpið hefur ekki einu sinni með lýðheilsu að gera.

Ef við fjöllum aðeins um þetta frumvarp get ég alveg sagt strax að mér þykir ákaflega vænt um ÁTVR. Það hefur alltaf verið þarna og mér fer sjálfkrafa að þykja vænt um það. Það er eins og með RÚV, mönnum þykir vænt um það en báðar þessar stofnanir eru fullkomlega óþarfar. Margir einkaaðilar geta séð um það sem þessar stofnanir sjá um.

Ég verð að viðurkenna að ég er óánægður með eitt í kringum þetta frumvarp, það að menn skyldu ekki ganga alla leið, að menn skyldu ekki líta á þessa vöru sem almenna neysluvöru sem er lögleg vara og fara með hana sem slíka. Ég mun greiða atkvæði með og styðja þetta frumvarp, ekki svo að skilja að ég haldi að verslunin verði eitthvað betri og meira úrval heldur af prinsippástæðum. Ég lít svo á að verslun eigi ekki að vera í einokun ríkisins eða annarra og að það sé hagstæðast fyrir neytendur. Þess vegna styð ég frumvarpið, það afléttir einokun ríkisins.

Nú hafa þeir stjórnarandstöðuþingmenn sem hafa talað hér, margir hverjir og sumir tvisvar, látið sem þetta mál snúist ekkert um einkasölu ríkisins heldur um lýðheilsu. Að vísu heyrir maður þegar þeir byrja að tala hvað ríkiseinokunin skiptir þá raunverulega miklu máli, ekki bara í þessu máli heldur í mörgum öðrum málum. Menn telja öllu best borgið með því að ríkið sjái um það. En allt í lagi, við skulum aðeins ræða þetta út frá lýðheilsusjónarmiðum og hvort það sé trúverðugur málflutningur hjá stjórnarandstöðunni og fleirum.

Getur það virkilega skipt meginmáli fyrir lýðheilsu þjóðarinnar að hér verði verslunum hugsanlega lítillega fjölgað miðað við það sem nú er? Það getur varla verið því að enginn sagði neitt um lýðheilsu þegar ÁTVR fjölgaði verslunum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðs vegar um land. Enginn talaði um lýðheilsu, enginn á hinu háa Alþingi hafði áhyggjur. Ekki minnist ég þess, a.m.k. voru ekki slíkar áhyggjur sem fram koma núna.

Hver segir, og hvað hafa menn fyrir sér í því, að lýðheilsu muni hraka þó að áfengi verði selt í aðeins fleiri verslunum? Hefur lýðheilsu hrakað síðan ÁTVR fjölgaði útsölustöðum? Ef menn gætu sýnt mér fram á það gæti ég hugsanlega keypt þetta. Mér finnst ég kominn í sömu umræðuna og var hér, ég var ekki hér sjálfur en ég hlustaði á hana, 1988 og 1989 þegar átti að leyfa bjórinn. Það færi allt til andskotans ef menn gætu drukkið bjór sem menn gátu ekki áður.

Svo eru líka til rannsóknir, af því að menn eru alltaf að vísa í rannsóknir sem ég er að vísu mjög tortrygginn út í, sem sýna að þrátt fyrir þessa fjölgun útsölustaða ÁTVR hefur hvorki ofdrykkja, misnotkun á áfengi né almenn neysla ungs fólks aukist. Hún hefur í raun dregist saman. Í staðinn fyrir að horfa á þessar staðreyndir er vísað til einhverra rannsókna úti í heimi sem við vitum ekki hver framkvæmdi, hvaða hagsmunaaðilar framkvæmdu og við hvaða aðstæður það var gert. Menn halda því bara statt og stöðugt fram að um leið og einn, tveir eða þrír fleiri útsölustaðir verði opnaðir hraki lýðheilsunni. Við höfum hins vegar dæmi fyrir framan okkur sem sýna annað.

Af því að menn eru að tala um rannsóknir vil ég upplýsa um breska rannsókn sem sýndi að byggðarlög á Bretlandseyjum með krám væru félagslega sterkari og atvinnulífið öflugra en þar sem þeirra nyti ekki við. Skoðaðir voru 2.800 smábæir á Bretlandseyjum, rannsóknin stóð í eitt og hálft ár, vísindaleg rannsókn unnin af háskólanum, og leiddi í ljós að knæpur efldu bæjarbraginn og ykju samheldni. Rannsóknin leiddi í ljós að þar sem knæpur fyrirfundust voru íbúarnir 40–50% líklegri til að taka þátt í bæjarhátíðum, fara á íþróttaleiki, sækja menningarviðburði og þess háttar, auk þess sem atvinnulíf var öflugra.

Ræðumenn hafa bent á að það sé ekki síst félagslegi þátturinn sem ráði miklu um framvindu bæjarfélaga á landsbyggðinni. Þar sem vistin er daufleg una íbúarnir sér vel. Þessi breska könnun bregður nýju ljósi á þetta mál. Kráin, pöbbinn, er ekki lengur aðeins hluti af bæjarbragnum, partur af því mósaíki sem samfélag mannanna er, hún getur verið forsenda fyrir því að búa til eftirsóknarverðan bæjarbrag — eins og rannsóknir sýna. Nú veit ég svo sem ekkert um þetta en þetta eru rannsóknir og menn eru alltaf að vísa í rannsóknir.

Ég trúi því sjálfur og hef tilfinningu fyrir því að þar sem er áfengisútsala sé meiri bæjarbragur. Þar sem pöbbinn er er betra hverfi. Ég held að það sé nákvæmlega svona. Ég held að það sé alveg hárrétt. En hvað segir þetta okkur? Segir þetta okkur eitthvað um það að misnotkunin verði meiri? Er það ekki það sem við erum alltaf að glíma við, ekki það hvort þeir sem eiga ekki í vandræðum með áfengisdrykkju fá sér frekar tvisvar í viku rauðvín með matnum en einu sinni í viku? Af hverju halda menn að það að hafa færri útsölustaði geri það að verkum að maður kaupi minna? Ég fullyrði að ég keypti meira áfengi í einu áður fyrr en ég geri núna vegna þess að útsölustaðir eru orðnir það margir að á rúntinum í kringum bæinn er stutt í einhvern þeirra. Ég held að það séu bara fullyrðingar út í loftið og ég held að þetta mál snúist ekki um lýðheilsu. Andstaðan við málið snýst um það að menn treysta ekki einkaaðilum til að selja áfengi. Menn vilja bara að ríkið reki þessar verslanir. Gott og vel, það er afstaða, ég get alveg skilið hana. Ég held hins vegar að allur þessi lýðheilsubúningur sem þetta mál er skyndilega komið í standist tæplega.

Við getum líka skoðað þetta eins og það hefur komið fram í umræðunni í kvöld þar sem aðgengið að áfengi er erfiðast. Þar eru hæstu tölurnar um akstur undir áhrifum og slys í umferðinni sökum áfengisdrykkju. Þessi rökstuðningur stenst einfaldlega ekki. Fjöldi staðanna hefur ekki með vandamálið sem slíkt að gera. Þetta er bara spurning um þjónustu á löglegri vöru sem neytendur eiga auðvitað að fá að njóta. Neytendur eiga að njóta hagstæðs verðs og eðlilegrar samkeppni um vöruna eins og allar aðrar vörur. Ég held að við eigum að hætta þeirri hugsun almennt, þetta á ekki bara við um áfengið, að miða stefnuna við þá sem ekki neyta vörunnar eða ekki kunna með hana að fara. Við eigum ekki að nálgast þetta þannig í viðskiptaháttum.

Auðvitað eigum við að hafa öflugar forvarnir, það er allt annað mál, öfluga fræðslu og forvarnir. Fjöldi áfengisstaðanna skiptir hins vegar ekki neinu máli. Ég hef oft verið í útlöndum og í nágrenni við þessar búðir sem selja áfengi og ekki orðið var við að það sé yfir höfuð mikið keypt þar eða að maður hlaupi til sjálfur af því að þetta er í búðinni. Ég held að það sé bara gamaldags hugsun sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.

Það kom meira að segja fram hjá hv. þm. Bjarkeyju þar sem hún hélt því fram —

(Forseti (EKG): Ég bið hv. þingmann að nefna hv. þingmann fullu nafni.)

— Bjarkeyju Gunnarsdóttur, fyrirgefðu, þar sem þingmaðurinn hélt því fram að ríkissala væri forvörn. Maður spyr sig: Í hverju felst sú forvörn? Felst forvörnin í þeim sem selur? Ég skil ekki þennan málflutning, ég skil þetta ekki. Ég get hins vegar skilið margt annað í þessu, eins og það að menn hafi áhyggjur af því að úrvalið verði minna eða eitthvað slíkt. Það getur vel verið að það sé rétt, ég veit ekkert um það, en prinsippið er að hér er um að ræða löglega vöru sem flestir neyta eins og hverrar annarrar vöru. Menn geta misfarið með hana, það getur verið vandamál hjá sumum, en af hverju þarf ég alltaf sjálfur að blæða fyrir það með því að það sé erfitt fyrir mig að nálgast hana vegna þess að einhver annar kann ekki að fara með hana? Ég skil þetta ekki.

Svo hugsa ég um alla þessa ferðamenn þar sem menn eru að reyna að búa til einhverja ferðaþjónustu. Menn eru að reyna að fá einhverja ferðamenn yfir veturinn og svo geta þeir ekki farið út í búð og þurfa að fara kannski 5 kílómetra til að ná sér í áfengi. Við náum engum árangri með svona gamaldags hugsun. Við eigum bara að nálgast þessa vöru. Við vitum að hægt er að misnota hana og við beitum öðrum úrræðum til að eiga við það.