144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[21:13]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Eftir síðustu ræðu mína í þessum ræðustól ákvað ég að nýta tækifærið og spurði á andlitsdoðrantinum hjá mér af hverju og hvenær fólk byrjaði að drekka eða af hverju og hvenær það hefði ákveðið að gera það ekki. Svörin voru á þann veg að fólk byrjar helst vegna hópþrýstings eða forvitni og aðrir byrjuðu ekki að drekka vegna þess að þeir sáu engan tilgang með því eða vildu bara ekki prufa það. Flestir sem höfðu drukkið eða drekka enn mundu alveg eftir forvörnum í skóla og heima fyrir. En eins og bent hefur verið á neyta unglingar í dag eiturefna í meira mæli en áður og fréttir hafa verið um ungt fólk sem fær sér í haus eða nös og notar töflur frekar en að nota áfengi þegar það fer út að skemmta sér.

Forvarnir eru alltaf til bóta en þær virka ekki einar og sér. Aðgengi, sýnileiki og aldursmörk skipta meira máli samkvæmt títtnefndum rannsóknum á vegum Norðurlandaráðs. Forvarnir vinna vel með því en þær gera lítið einar og sér. Það er ekki hægt að kaupa sig frá vandanum. Hvað gerist ef við fellum frumvarpið en aukum samt verulega í Forvarnasjóð? Hvað gerist ef við hjálpum betur því fólki sem hefur misstigið sig í lífinu út af áfengisnotkun eða notkun á öðrum vímuefnum?

Það er margsannað, eins og fram kemur í skýrslu velferðarnefndar Norðurlandaráðs, sama hversu mikið fólk ranghvolfir augum yfir þeirri skýrslu, að aukið aðgengi veldur meiri neyslu. Sumir hafa haldið því fram hér í ræðustóli að með auknu aðgengi læri fólk að umgangast og neyta áfengis, neyti þess til dæmis með mat í stað þess að detta rækilega í það við og við. En ég velti fyrir mér: Hver í heilbrigðiskerfinu á að bera þungann af þessu fólki á meðan það jafnar sig eða lærir inn á það að drekka? Áfengi er ekki bannað hér á Íslandi og við erum ekki að tala um að taka það nýtt inn. Við erum ekki að banna sjálfráða einstaklingum, sem hafa aldur til samkvæmt lögum, að kaupa eða neyta áfengis.

Í bók sem landlæknir setur inn á heimasíðu sína, um niðurstöður rannsókna sem hafa beina þýðingu fyrir stefnumótun í áfengismálum, kemur meðal annars fram að almennt séð er það mjög áhrifamikið ráð að stjórna aðgengi og stýra notkun áfengis. Þar sem þessi aðferð er víðfeðm og kostnaðarlítil er hægt að gera sér vonir um mikinn árangur við að draga úr skaða af völdum áfengis. Flestar aðgerðir gegn ölvunarakstri fengu einnig góða einkunn hvað varðar árangur. Þessar aðferðir eru ekki eingöngu vel staðfestar með rannsóknum heldur virðast þær gera gagn í flestum löndum en eru jafnframt frekar einfaldar í framkvæmd og auðvelt að viðhalda þeim. Í þessari bók sem landlæknir birtir kemur meðal annars fram að ekki sé hægt að búast við miklum árangri af skólafræðslu og upplýsingaherferðum um áfengi eða gegn því. Þrátt fyrir að auðvelt sé að ná til fjölda nemenda sé árangur lítill svo þessi aðferð svari ekki kostnaði og skili litlum árangri. Þar er þá verið að tala um forvarnastarf eitt og sér en eins og ég sagði áðan þá virkar það mjög vel með því að stýra aðgengi að áfengi.

Aðalatriðið, finnst mér, er að þetta er lýðheilsumál. Áfengi er ekki eins og venjuleg vara, um áfengi gilda önnur lög. Áfengi er ekki eins og mjólk og brauð. Það veldur fíkn og þess vegna hefur meðal annars verið góð samstaða um að auglýsa ekki áfengi hérlendis. Það hafa meðal annars verið rökin sem voru notuð gegn frjálsum auglýsingum á áfengi. Ég hef líka velt því fyrir mér hvort hv. þingmenn hafi hugsað um aukinn kostnað vegna álags á heilbrigðiskerfið, sem yrði með aukinni neyslu en sýnt hefur verið fram á að aukið aðgengi leiðir til aukinnar neyslu.

Ég hef ekki sagt að ég sé á móti forvörnum en allt sem ég hef lesið bendir til þess að þær séu ekki nægar einar og sér. Þar sem áfengi er ekki bannað og fólk getur farið og keypt sér áfengi ef það hefur aldur til þá get ég ekki séð að þetta sé mjög mikið hamlandi fyrir fólk.