144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

innflutningstollar á landbúnaðarvörum.

320. mál
[17:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það sem hann nefndi um garðyrkjuna var mjög góð skýring og sýnir akkúrat að með opnuninni er ekki hægt að tryggja óbreytt framleiðslumynstur. Með opnuninni skapast ný tækifæri og kannski glatast önnur. Almenna reynslan sem við sjáum af garðyrkjunni er hins vegar að hún stendur sig gríðarlega vel í samkeppni, ekki bara í tómötum og gúrkum, heldur líka í blómum, berjum o.s.frv. Hún á gríðarleg sóknarfæri og þolir opið samkeppnisumhverfi afar vel. Ég er sannfærður um að aðrar búgreinar yrðu undir sömu sök seldar með opnu umhverfi.

Mér finnst eðlilegt að orða þessa spurningu hér: Hver eru samningsmarkmið ríkisins? Það er það sem mér finnst ekki liggja ljóst fyrir. Það flýgur fyrir að einokunarfyrirtækið MS hafi engan sérstakan áhuga á þessu máli, sé ekkert áfram um opnun. Þó að markaðir fyrir skyr mundu opnast í öðrum löndum mun MS sjá fyrir sér að hingað komi meiri innflutningur á móti og hún tapi bara á því. Fyrir einokunarrisann mikla er enginn sérstakur hagur af þessu og þess vegna gerist afskaplega lítið í viðræðunum. Er þetta rétt greining á stöðunni?

Ég tel mjög mikilvægt að við metum stöðuna út frá hagsmunum þjóðarinnar. Þjóðin hefur af því hag, og fyrir því liggja greiningar, að opna þetta alveg óháð fullkominni gagnkvæmni. Síðan verðum við að horfast í augu við það líka að við erum með ofvernd á tilteknum greinum. Það eru ekki sömu efnisrök til verndar búvöruframleiðslu sem er hagað með þeim hætti (Forseti hringir.) sem hvíta kjötið og eggin eru í samanburði við mjólkurframleiðsluna (Forseti hringir.) og lambakjötsframleiðsluna. Það eru ólíkar (Forseti hringir.) búgreinar. Það kunna að vera ólík rök fyrir verðvernd. Það er ekki hægt að leggja allt að jöfnu (Forseti hringir.) í því.