144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

leiðrétting á forsendubresti heimilanna.

[13:55]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég skal byrja á því að viðurkenna að það kom mér á óvart að sjá hv. þm. Helga Hjörvar mæta hér í dag eins og sá þingmaður hefur talað síðustu vikur, mánuði og raunar ár, eftir að niðurstöður skuldaleiðréttingarinnar voru kynntar í gær og í ljós kom að meira og minna allt sem hv. þingmaður hefur haldið fram var rangt, kolrangt. Samt mætir hv. þingmaður hér og lætur eins og hann hafi ekkert heyrt, heldur áfram með sama sönginn, sömu vitleysisupptalninguna, 300 milljarðana meira að segja. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera einn af örfáum sem trúir því að enn þá sé hægt að spinna þann blekkingarvef.

Hv. þingmaður heldur því líka fram að verið sé að færa fjármagn til þeirra tekjuhæstu og lítur þá greinilega svo á að einstaklingar sem eru með meira en 7 millj. kr. í árstekjur séu tekjuhæsta fólk landsins, en einstaklingar með minna en 7 millj. kr. í árstekjur fá 75% leiðréttingarinnar. (Gripið fram í.) En af því að hv. þingmaður fer inn á þessa braut er ekki hægt að láta hjá líða að rifja upp áhrifin af 110%-leið hv. þingmanns og félaga hans og hvernig það skiptist, fyrst við tölum um 20 milljarða. Meira en 20 milljarðar, (Gripið fram í: Bankarnir greiddu …) helmingurinn af því fjármagni sem nýttist í 110%-leiðinni fór til 1% heimila. 1% heimila fékk helming aðgerðarinnar, yfir 20 milljarða kr. Hvaða réttlæti var í því, hv. þingmaður? Hversu jöfn var skiptingin þá? Þá voru ekki áhyggjurnar af því að einhverjir sem ættu mikið eða væru tekjuháir fengju eitthvað. Að hv. þingmaður skuli mæta hér í dag og leyfa sér að halda áfram með vitleysisupptalningu sem hann hefur verið með hér undanfarna mánuði og hefur nú komið í ljós að er alröng að öllu leyti, er því með hreinum ólíkindum.