144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

aðgengi að upplýsingum.

[14:00]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í aðgengi að upplýsingum. Það eru þrjú atriði sem mig langar að nefna, þar á meðal aðgengi almennings að ópersónugreinanlegum upplýsingum og gögnum sem liggja til grundvallar þessari skuldaleiðréttingu. Mun almenningur fá aðgengi að þeim, þ.e. öllum gögnum sem liggja til grundvallar, þannig að þeir sem áhuga hafi geti farið að rekja sig í gegnum það á hvaða grunni hún er byggð.

Í öðru lagi er aðgengi almennings að skilmálum Landsbankabréfsins sem er stærsta skuldabréf banka sem er nánast alfarið í eigu ríkisins. Það segir í upplýsingalögum að við eigum að hafa aðgengi að upplýsingum frá fyrirtækjum sem eru yfir 50% í eigu ríkisins nema það séu einhverjar undanþágur. Þetta er skuldabréf sem er stærsta einstaka skuldabréfið þarna og sambærileg skuldabréf í öðrum bönkum á Íslandi eru aðgengileg á vefsíðu þeirra banka. Þetta er mjög óeðlilegt fyrirkomulag. Nú á að fara að endursemja um þetta skuldabréf þannig að það væri eðlilegt að við fengjum að vita hvað stendur í því og hverjir skilmálarnir eru.

Í þriðja lagi er aðgengi þingmanna að upplýsingum til að geta unnið breytingartillögu við tekju- og útgjaldafrumvörpin sem ráðherra hefur lagt fram. Í þingsköpum eru þau sérstaklega nefnd, að þau skuli lögð fram fyrst, og þingmönnum er í 46. gr. þingskapa gefin heimild til að leggja fram breytingartillögur við öll frumvörp.

Það er erfitt að fá aðgengi að upplýsingum frá ráðuneytunum til að geta unnið nokkra breytingartillögu. Ég hef lagt mig fram, ég byrjaði í september og byrjaði raunar að reyna það í gegnum upplýsingasvið Alþingis. Það vísaði mér á ráðuneytið, það tafðist og tafðist. Ég fékk á endanum eitthvað frá skattanefndinni en þá var mér vísað annað: Þú verður að tala við aðra deild innan fjármálaráðuneytisins. Það ætla ég að gera á morgun, að tala við ráðuneytisstjórann. En ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort hann vilji ekki greiða götu mína og tryggja að þingmenn fái aðgang að góðum upplýsingum til að geta unnið þessa breytingartillögu við frumvarp hans.