144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Hér er verið að hækka virðisaukaskattsþrepið frá 7% og upp í 11%. Það átti að fara í 12% en fór í 11%. Ef það hefði farið í 12% þá sagði hæstv. fjármálaráðherra að heildarpakkinn mundi hækka matvælaverð um 2,5%. Í staðinn fyrir að fara með það upp í 12% á núna að fara með það í 11% sem mun hækka matvælaverð um 1–2% samkvæmt hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar. Það sem vantar er alhliða mótvægisaðgerð sem hefur verið kallað eftir af ríkisstjórninni. Hún kallaði eftir samráði um mótvægisaðgerðir til þess að tryggja að matvælaverð hækkaði ekki. Það er til slík mótvægisaðgerð sem uppfyllir algjörlega ramma ríkisstjórnar um skilvirkara skattkerfi sem er að taka af tolla og kvóta á matvæli. Það er óskilvirkur skattur, það er vondur skattur. Já, hann verndar vissulega búvöruframleiðendur en það er hægt að veita þeim ígildi verndarinnar með beinum framlögum og ná því inn með betri skatti. Það er tillaga okkar pírata hvað þetta varðar. (Forseti hringir.) Hún hefur verið dregin til baka í þessari umræðu, (Forseti hringir.) en ég vona að ríkisstjórnin hlusti á þetta og skoði milli umræðna.