144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í þessari grein kristallast klúður hæstv. ríkisstjórnar í sambandi við ferðamálin undir ötulli forustu hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Hér er verið að skerða þó ekki í miklu sé markaðan tekjustofn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða þannig að einungis verða til ráðstöfunar 145 milljónir á næsta ári. Reisupassafrumvarpið flatrekur hér fyrir þinginu og næsta öruggt að það verður aldrei afgreitt, í öllu falli alveg öruggt að það mun engum tekjum skila á næsta ári. Þannig að annað árið í röð leggur ríkisstjórnin upp í árið með tóman sjóð að kalla má að þessu leyti. Það er hörmuleg frammistaða og grafalvarleg vegna þess að á bak við liggur náttúra Íslands sem liggur undir skemmdum. Þó það sé meira táknrænt en að það skipti sköpum að skerða þennan sjóð sérstaklega um 13 millj. kr. þá er það til skammar ofan í hörmungarframmistöðu (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar að standa þannig að málum.