144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég fagna orðum forseta um að hann túlki það svo að hann hafi ekki heimildir til að hlutast til um það að þingmenn geti lagt breytingartillögur, klárlega eins og stjórnarskráin heimilar. Það er mjög gott. Varðandi lögformlega þáttinn í þessu virðist það samt sem áður vera þannig að þingið geti þá tekið ákvarðanir eða lagt fram breytingartillögur við þingsályktunartillögur og jafnvel samþykkt þingsályktunartillögur sem stangast á við lög en þá er þingið hálfasnalegt yfir að hafa samþykkt það og framkvæmdarvaldið hefur ekki heimild til að framkvæma það. Það er mögulega það sem þessar breytingar gera af því að í lögum er kveðið á um ákveðið ferli til að hægt sé að hlutast til um þessa nýtingarkosti. Við munum sjá það og það er nokkuð sem á eftir að útkljá.

En það er ekki gott ferli að taka fyrir svona stórmál án þess að hafa sett þau á dagskrá. Það er nokkuð sem forsætisnefnd (Forseti hringir.) ætti að skoða. Það á ekki að heimila að taka stórar ákvarðanir undir liðnum Önnur mál. Það er hægt að boða til nýs fundar og það er hægt að gera það á klukkutíma. Þá vita að minnsta kosti allir af honum.