144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

Hafrannsóknastofnun.

[15:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka fyrra svar mitt, við brugðumst við á síðasta ári. Það er rétt, ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda, að því meir sem við vitum því betra og því ábyggilegri verður hin vísindalega ráðgjöf sem við byggjum ákvarðanir okkar á.

Hafrannsóknastofnun er með rúma 3 milljarða, 3,3 milljarða kr., á fjárlögum, ef ég man rétt, eftir breytingarnar, sem þeir hafa úr að spila. Þeir sem stjórna Hafrannsóknastofnun vega og meta og ákveða forgangsröðun um hvaða rannsóknir eru mikilvægastar. Margar rannsóknir eru mjög mikilvægar. Það væri auðvitað mjög gott ef við gætum rannsakað allt og gætum svarað öllu, en þannig er það bara ekki, hvorki í hafrannsóknum né á öðrum sviðum mannlífsins. Við getum ekki gert allt, við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti.

Við höfum verið að reyna að skjóta eins sterkum stoðum undir starfsemi Hafrannsóknastofnunar og hægt er á síðasta ári og það getur vel verið að við þurfum að gera það áfram. Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að starfsemi Hafrannsóknastofnunar er grundvöllur þess að við (Forseti hringir.) getum tekið skynsamlegar ákvarðanir á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar.