144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

tryggingagjaldsgreiðslur vegna fólks sem er 60 ára og eldra.

599. mál
[16:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram nokkrar fyrirspurnir til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem varða það með hvaða hætti þær greiðslur sem innheimtast í ríkisstjórn vegna tryggingagjalds skiptast. Eins og hæstv. ráðherra tekur eftir varða þessar fyrirspurnir einkum það sem við getum kallað efri lög eða eldri lög vinnuaflsins. Ástæðan fyrir þessum fyrirspurnum mínum er sú að ég tel að fram undan sé á þessu kjörtímabili, í síðasta lagi í upphafi hins næsta, lækkun á tryggingagjaldi og ég hef ákveðnar hugmyndir um með hvaða hætti eigi að fara í þá lækkun. Til að hægt sé að skoða það nánar á hinu háa Alþingi þarf ég þær tölur sem ég hef spurt hæstv. ráðherra um.

Eins og við vitum skiptist tryggingagjaldið í mismunandi gjöld. Stærsti parturinn, ljónsparturinn, er almenna tryggingagjaldið. Það losar 5,3%, eða hvort það eru 5,29%, og svo er náttúrlega sérstakt atvinnutryggingagjald upp á 2%. Önnur gjöld eru smærri. Það hefur verið samkomulag á milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins um að því sem innheimtist af þessu sé einkum varið til að standa straum af ýmsum kostnaði sem tengist vinnumarkaðnum. Þar hefur skipt mestu máli sá kostnaður sem hefur fallið til vegna atvinnuleysis í kjölfar bankahrunsins 2008. Á þeim tíma var nauðsynlegt að grípa til allra ráða til að kosta þær aðgerðir sem varð að fara í, m.a. stórfelldar greiðslur á atvinnuleysisbótum. Mig minnir að þá hafi gjaldið verið hækkað um ríf 3% en síðan hafa hlutirnir gengið betur. Strax í tíð fyrri ríkisstjórnar þegar spáð var 14% atvinnuleysi sleikti það þó aldrei meira en 10% og varð um það bil 8% þegar mest var á heilu ári.

Nú blasir hins vegar við að allt gengur samkvæmt þeirri áætlun sem þá var lögð og atvinnuþátttaka er að aukast, meira framboð er af störfum og þar af leiðandi minni þörf og minni kostnaður vegna atvinnuleysisbóta. Verslunarráð hefur litið svo á að frá síðustu þingkosningum sé verið að ofgreiða sem svarar 9 milljörðum vegna þessa. Ég tel hins vegar að samkvæmt laganna hljóðan muni þetta leiða til þess að óhjákvæmilegt sé að lækka þessar greiðslur. Ég er þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt af Alþingi að skoða hvort ekki sé hægt að ráðast í að búa til úr lækkuninni efnahagslegan hvata fyrir fyrirtæki til að ráða til sín það fólk sem á öðrum fremur erfitt á vinnumarkaði, þ.e. þá sem eru í þeim aldursbilum sem ég spyr um.

Ég ætla ekki að spyrja hæstv. ráðherra út úr um það en ég tel að það uppfylli reglur jafnræðis og annað. Til að geta skoðað þetta vel þarf ég hins vegar þessar tölur og ég veit að (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra mun reiða þær glaður af höndum.