144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[17:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur nú verið talað um það af mörgum sem þekkja til að þetta sé í raun skattur en ekki auðlindarenta. Það eru þarna afkomustuðlar sem þetta byggist á og enginn greinarmunur er gerður á smærri útgerðum og stærri. Af hverju má þá ekki hafa einhverja afkomustuðla gagnvart mismunandi útgerðarformum? Af hverju mætti þá ekki tengja það á einhvern hátt; vegna stærðarhagkvæmni þeirra stærstu, að sækja per kíló af þorski í sjó, af hverju mætti ekki horfa til þess með einhverjum hætti?

Þær tölur eru allar til hjá Hagstofunni, ættu að vera, eða upplýsingar hjá ríkisskattstjóra. Ég varpa því svona fram. Þessi afkomustuðlahugmynd er ekkert alvitlaus, langt í frá, ég ætla ekki að segja það. Það er svo sem hægt að horfa til þess að þessi hugmyndafræði liggi undir og ákvörðun alltaf tekin út frá þessari hugmyndafræði um hve hátt gjaldið eigi að vera.

Ég skil það þannig að líka sé hægt að horfa til þess hvað hver tegund eigi að gefa en mætti ekki horfa eitthvað til afkomu mismunandi útgerðarflokka? Þá væri frekar hægt að sætta sig við þessa útfærslu og ég held að í heildina tekið gæti heildargreiðslan sem kæmi til ríkisins verið álíka þó að tilfærsla væri innan kerfisins.