144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[18:57]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma inn í þetta mál. Enn einu sinni erum við að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á veiðigjöldum, sem við höfum líklega gert of oft hjá þessari ríkisstjórn. Þrátt fyrir að hér hafi verið sagt að hún hafi hugsanlega eitthvað tekið inn, þar sem verið væri að innheimta í kringum 10 milljarða af veiðigjöldum, er flest af því sem þessi ríkisstjórn hægri stjórn, hefur lagt fram ekki í samræmi við stefnu okkar vinstri grænna. Ég vil segja eins og aðrir að þetta frumvarp er allt of seint fram komið, líkt og flest stærri frumvörp sem virðast eiga að detta inn hjá ríkisstjórninni, og í raun óásættanlegt að fjalla um umdeilt mál sem þetta á svona skömmum tíma. Þetta er ekki aðeins umdeilt mál á þingi heldur þekkjum við það úti í samfélaginu líka. Það er eðlilegt, held ég, því að sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein og hefur bæði bein og óbein áhrif á flesta landsmenn. Stór hluti byggða okkar hefur mótast á einn eða annan hátt í gegnum sjávarútveginn og ekki síst hina síðari tíma í tengslum við kvótakaup.

Því miður höfum við dæmi, sem við höfum rakið á þingi, þar sem fjársterkir aðilar ýmist kaupa upp kvóta, sem hefur svo safnast á fárra hendur og íbúar byggða sem höfðu lífsviðurværi sitt af sjávarútvegi sitja eftir í hálfgerðum áttahagafjötrum, eða eins og gerðist í fyrra þegar fyrirtækið Vísir ákvað á einni nóttu að leggja niður starfsemi sína á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri. Það má svo sem segja að einhverjar byggðir hafi haft tök á því að spyrna við fótum og tryggja aðra starfsemi eða ný verkefni í heimabyggð sinni, en það er ekki raunverulegur kostur alls staðar. Það breytir því ekki að ég held að fólki í landinu þyki rétt og sanngjarnt að aðilar sem nýta auðlindina borgi sanngjarnan arð.

Eitt af því sem gildandi veiðilög kveða á um er að tryggja skuli þjóðinni hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar. Þess vegna var tilgangur upphaflegu laganna skýr, þ.e. tengslin á milli auðlindarentunnar í fiskveiðunum og veiðigjaldanna. Þau fjölluðu að mestu um það hve stóran hluta eigandi auðlindarinnar, sem er þjóðin, fengi af hagnaði eftir EBT og hve stóran hluta útgerðin fengi til viðbótar við allan rekstrarkostnað og eðlilegan hagnað af þeim fjármunum sem hún hefur lagt fram.

Líkt og rakið var áðan var verið að rjúfa þau tengsl hér og það er ekkert samhengi á milli tilgangs þessara laga og ákvörðunar um veiðigjöld. Markmiðið með því að setja ákvæði um auðlindir landsins í stjórnarskrá okkar er að tryggja margs konar aðkomu þjóðarinnar að þeim, m.a. umgengni, stjórnun og nýtingu, sem við vonum þá að sé betur tryggð fyrir búsetu í öllu landinu. Með lögum um veiðigjald á útgerðarfyrirtæki fá hinir sameiginlegu sjóðir okkar aukinn hluta af hagnaðinum af fiskstofnum þjóðarinnar. Því miður hefur hægri stjórnin hins vegar ákveðið frá því að hún tók við að verða af tugum milljarða tekna sem áttu meðal annars að fara í innviðauppbyggingu í samfélaginu. Fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar bar þess merki, því að gjarnan var talað um að hún væri ófjármögnuð, en það var m.a. þar inni. Nú sitjum við uppi með að innviðir samfélagsins eru að molna og engir peningar eru settir í þá

Þegar verið er að tala um að veiðigjöldin séu ósanngjörn, að þau séu há eða íþyngi litlum og meðalstórum fyrirtækjum, að útgerðir fari hreinlega á hausinn eða að þau leggist fyrst og fremst á landsbyggðina, skerði laun sjómanna eða hvað það nú var, standi jafnvel í vegi fyrir nýfjárfestingu og endurnýjun, þá veit ég að almenningur í landinu kaupir ekki þann málflutning. Það höfum við séð með undirskriftum o.fl. En það koma ósköp fá málefnaleg sjónarmið fram í greinargerð frumvarpsins um hvernig veiðigjöldin eiga að vera til framtíðar, hinar talnalegu forsendur. Það er svo sem slegið fram einhverjum tölum en það varpar ekki beinlínis ljósi á endanlega niðurstöðu.

Hvort sem við lítum til orkugeirans eða ferðaþjónustunnar eða annars sem byggir á íslenskri náttúru þurfum við og gætum gert svo miklu betur og haft meira þar inni af auðlindarentu. Þess vegna skipti máli að greinar eins og sjávarútvegurinn, sem bæði nýtir og byggir afkomu sína að rosalega miklu leyti á auðlindum þjóðarinnar, greiði sanngjarnt auðlindagjald. Svo getum við auðvitað skipst á skoðunum um það hvað okkur þyki sanngjarnt og það höfum tekist á um í þessum sal.

Það er gjarnan látið eins og við sem krefjumst þessarar tengingar, auðlindarentutengingarinnar, viljum knésetja þessa atvinnugrein. Það er ekki svo heldur viljum við að þau fyrirtæki sem hafa einstök leyfi til að nýta auðlindina greiði fyrir það gjald. Það sem við vinstri græn höfum sett fram er ekki til þess gert að fyrirtækjunum blæði heldur í þeim tilgangi að þau greiði brot af umframarði sínum þegar dreginn hefur verið frá allur rekstrarkostnaður og annað sem þarf til áframhaldandi fjárfestinga.

Síðan getum við rætt það sem kom fram áðan um sáttina og kemur fram í greinargerðinni. Ég skil ekki alveg hvernig ráðherranum dettur í hug að leggja það fram að hér sé einhver sátt á milli þjóðarinnar og útgerðarinnar, eða hverra það nú er. Ef það væri þannig mundum við væntanlega þora að setja inn í stjórnarskrána á einhvern hátt það sem kallað hefur verið eftir. Þá mundum við þora að leyfa þjóðinni að taka þátt í þessari ákvörðun og við mundum hlusta þegar hún hefur talað með alls konar undirskriftum. Það virðist ekki litið þannig á að sá sem fer með spilin fyrir hönd þjóðarinnar hafi einungis gætt að útgerðinni en ekki að auðlindarentu þjóðarinnar.

Í greinargerðinni kemur fram eitt megintilefnið, að eigandi nytjastofna á Íslandsmiðum, íslenska þjóðin, eigi sjálfsagðan rétt til sanngjarnar greiðslu frá þeim sem njóta aðgangs að nytjastofnum sjávar. Í framhaldi segir að eigandi auðlindarinnar, íslenska þjóðin, eigi rétt á sanngjörnu endurgjaldi fyrir heimildir sem veita aðgöngu að sjávarauðlindinni. Það er holur hljómur í þessu, getum við sagt, a.m.k. tel ég að verðmæti þjóðareignarinnar séu ekki raungerð í frumvarpinu og hvorki tengsl gjaldsins við auðlindina né önnur rök eru færð fram. Hvað er það sem ráðherrann telur að hann hafi náð sátt um? Það verður áhugavert að heyra þegar hann tekur saman umræðuna á eftir. Hvernig hyggst hann ná sátt um sanngjarnt og eðlilegt veiðigjald þegar augljóst er að viðhorfin eru gríðarlega ólík, ekki aðeins á þingi heldur líka í þjóðfélaginu, því að við tölum ekki einungis fyrir okkur sem hér stöndum heldur fyrir þá sem kusu okkur og telja þetta stórt mál.

Þetta lítur svolítið út eins og það þurfi að passa sjávarútvegsfyrirtækin og látið er sem rekstrarhagkvæmni þeirra sé ofar þjóðarauðlindinni, eins og verið sé að kippa undan öllum grundvelli, þrátt fyrir þessa veiðigjaldanýtingu eða auðlindarentu.

Það er náttúrlega mikið af tæknilegum vangaveltum í greinargerðinni og því hefur verið haldið fram að meiningin sé að byggja upp flókið skattframtal sem eigi að ráða við það. Það verður áhugavert að sjá þegar það kemur fram, hvort það gengur vel upp. Við tölum um arðsemi í sjávarútveginum, eins og kom fram áðan um árin eftir hrun sérstaklega, og það er auðvitað vel að fyrirtækjunum hafi gengið vel og þau skili miklum hagnaði, við viljum að sjálfsögðu hafa það þannig. Það er samt sem áður svo ef við hugsum um rentuna að hún hefur hækkað um tugi milljarða en það er í sjálfu sér ekki mikil breyting á aflabrögðum. Það er ekki eitthvað annað sem skýrir hækkunina, það er fyrst og fremst gengið sem hefur haft áhrif, sem verður auðvitað útgerðinni til góða en við þekkjum það á eigin buddu að við höfum svo þurft að borga fyrir það þegar gengisfall verður.

Ég held að alltaf verði að horfa til þess að veiðigjöldin snerta okkur öll fjárhagslega. Það er eitt af stóru réttlætismálum samtímans hvernig við skiptum arðinum. Það þarf að gera betur grein fyrir bæði efnahagslegum og fjárhagslegum grundvelli þessarar gjörðar hér og leggja fram betri upplýsingar en koma fram, að mínu mati. Lögin sem sett voru á sínum tíma um veiðigjöld voru ekki einungis sett fram sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð heldur sem stefnumótun í auðlindamálum. Eins og ég sagði áðan kom skýrt fram við stjórnarskrárvinnuna að gert var ráð fyrir því að auðlindin væri raunverulega í eigu þjóðarinnar. Því miður tel ég það sem gerst hefur síðan og er að gerast núna ekki til þess fallið að styrkja það þar sem ekki á lengur að tengja veiðigjöldin við auðlindaarðinn.

Það sem á að hafa að leiðarljósi er tilkall þjóðarinnar til arðs af fiskveiðiauðlindinni. Arðurinn er réttmæt eign þjóðarinnar og á aldrei og má aldrei verða einkaeign fárra. Veiðigjöldin eru ekki skattheimta, þau eru afnotagjald af eign þjóðarinnar, fiskveiðiréttinum, og við innheimtum þau til að tryggja þjóðinni arð af eigin auðlind. Hvað varðar þau 10% sem á að skammta þjóðinni af þeim arði þá segi ég eins og einn góður maður: Það er eins og að henda beini fyrir hund eða brauðmolum fyrir smáfugla. Þeir sem gera slíkt eiga að skýra fyrir þjóðinni hvað þeir eiga við með yfirlýsingum um að fiskveiðiauðlindin sé þjóðareign.