144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Flokksþing Framsóknarflokksins hefur vissulega ályktað að betur færi á því að Bankasýslan annist meðferð eignarhlutar ríkisins í fjármálafyrirtækjunum, meðal annars til að tryggja armslengdarsjónarmið. Sömuleiðis hefur flokksþing Framsóknarflokksins ályktað um að Landsbankinn eigi að vera áfram í eigu ríkisins og starfræktur sem samfélagsbanki til að efla samkeppni á markaði. Tilefni þessara ályktana er að fákeppni ríkir á bankamarkaði hér á landi, stóru bankarnir þrír eru samanlagt með ríflega 90% markaðshlutdeild og hagnaður þeirra á síðasta ári varð ríflega 80 milljarðar og ríflega 60 milljarðar árið áður.

Ef Landsbankanum yrði sett það markmið að tryggja kröftuga samkeppni á fjármálamarkaði mundi hluti þessa mikla hagnaðar verða eftir hjá viðskiptavinum bankanna, fólkinu í landinu. Kannski væri sá ávinningur landsmanna einhverjir tugir milljarða, kannski 20–30 milljarðar. Það er eitthvað sem Framsóknarflokknum finnst mikilvægt að verði skoðað. Hinn möguleikinn er að selja hlutinn í Landsbankanum sem flestum finnst mjög augljóst og efni þessa frumvarps felur meðal annars í sér að hátt í 30% hlutur í Landsbankanum verði seldur. Þá yrði hægt að nota það söluverð til að lækka skuldir ríkissjóðs sem eru ærnar fyrir um kannski 70–90 milljarða, 30% af 250 milljörðum í eigin fé, eitthvað slíkt. Menn vita náttúrlega ekki á hvað er hægt að selja slíkan hlut en lækkun á skuldum mundi lækka vaxtabyrði ríkisins um 3–5 milljarða á ári en það er miklu lægri tala en þeir tugir milljarða sem hægt er að lækka hagnað bankanna um með virkri samkeppni ár eftir ár í þessu landi.

Þess vegna þarf þjóðin bara að velta því fyrir sér — og það er kannski hlutverk okkar þingmanna að skoða þetta frumvarp vandlega, við munum að sjálfsögðu gera það í umræðum hér á eftir. Þingflokkur Framsóknarflokksins leggst ekki gegn því að svona frumvarp fái þinglega meðferð og þá umræðu sem eðlileg er. (Gripið fram í.) Þingflokkurinn leggst ekki gegn því að (Forseti hringir.) frumvarpið sé rætt en þingmenn geta haft ýmsa fyrirvara við efni þess.