144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[15:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að benda á að það er að sjálfsögðu hæstv. fjármálaráðherra sem á að skýra það fyrir okkur en ekki formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins hvernig á því standi að ákvæði um uppljóstrara er ekki að finna í þessum lögum, því að þetta er 1. umr. málsins. Það breytir því ekki að það verður forvitnilegt að heyra álit formanns efnahags- og viðskiptanefndar og annarra sem sæti eiga í þeirri nefnd hvert vilji þeirra stendur í þessu efni.

Varðandi spurningu hv. þingmanns þá er ég honum hjartanlega sammála að í meðferð þingsins er mikilvægt að fá ákvæði um uppljóstrara inn í frumvarpið, og ég er líka sammála honum um mikilvægi þessa frumvarps og að uppistöðu til sé um að ræða lagasmíð sem mjög breið samstaða ríkir um í þinginu. Þá má segja: Ef við erum sammála um hitt líka, sem reyndar virðist koma fram í greinargerð frumvarpsins, að mikilvægt sé að styrkja réttarstöðu uppljóstrara í kerfinu, ber okkur að gera það.