144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[15:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni ræðuna. Ég kem hingað, og er á svolítið sömu miðum og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og vil víkja andsvari mínu að því er fram kom í máli hans um Evrópuráðið og umræðuna þar um uppljóstrara. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að deila atriðum með okkur af þeim umræðum. Hann er fulltrúi okkar hér af þinginu, einn af nokkrum, í Evrópuráðinu. Og eins og allir vita er Evrópuráðið ráðið þar sem mannréttindasáttmáli Evrópu var samþykktur á sínum tíma, ráðið sem er yfir Mannréttindadómstóli Evrópu. Það er svolítið athyglisvert, eins og fram hefur komið í máli hans fyrr hér í umræðunni, að ekki er einhugur um vernd uppljóstrara. Það þarf ekki að koma á óvart að breskir íhaldsmenn styðji ekki slíkar hugmyndir.

Þá finnst mér áhugavert að hann útskýri kannski fyrir okkur: Af hverju er Evrópuráðið að láta sig þessi mál varða, Evrópuráðið sem fjallar um mannréttindi, réttindi okkar í álfunni? Af hverju vill það fjalla sérstaklega um vernd uppljóstrara, hvernig snertir það uppljóstrarana sem í hlut eiga og hvernig snertir það hina almennu borgara í álfunni?