144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[15:33]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Við erum að ræða óskir okkar hér um að vernd uppljóstrara verði komið fyrir í lögum sem varða fjármálamarkaði. Við erum í þessari umræðu um fjármálamarkaðinn hér og nú vegna þess að hann fór heldur betur úr böndunum og þar gerðist ýmislegt sem hafði mjög alvarlegar og víðtækar afleiðingar sem ég ætla ekki að fara yfir hér.

En eins og kemur fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar er verið að ræða — í Evrópuráðinu var hann þátttakandi í umræðum er vörðuðu uppljóstrarann Edward Snowden. Það má segja að vernd uppljóstrara sé ekki bara mikilvæg þegar kemur að upplýsingum úr fjármálafyrirtækjum heldur líka upplýsingum sem ríkið er að safna eða stofnanir á þess vegum, því að ríkið er auðvitað með einokun á ofbeldi, ríkið er með einokun á alls kyns þáttum sem það þarf að hafa en stundum sjást stjórnvöld ekki fyrir. Og þá er mikilvægt að hugrökkum einstaklingum sé gert kleift að gera öðrum viðvart og þar með vonandi koma böndum á yfirgang stjórnvalda sem okkur væri annars kannski ekki ljós fyrr en í óefni væri komið.

Því vil ég spyrja hv. þingmann: Við erum að ræða fjármálalöggjöfina, látum það liggja á milli hluta í bili, en telur hann ekki mikilvægt að þar fyrir utan séum við almennt með slíka löggjöf hér á landi sem veitir (Forseti hringir.) uppljóstrurum vernd.