144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:50]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er alltaf gaman að hlusta á hann. Þetta var ágætisupprifjun á ástandinu hér eins og hann sá það fyrir og eftir hrun. Það sem mig langaði aðeins að velta upp með þingmanninum eru áhyggjur mínar af ástandinu. Ég hef rætt það oft hér í vetur, sérstaklega hvað mér finnst þessi ríkisstjórn og ráðherrar hennar draga til sín mikið vald. Það hefur sýnt sig í mörgum þeim frumvörpum sem hafa komið fram, síðast minnir mig að það hafi verið um Stjórnarráðið. Tilhneiging þeirra er að draga til sín vald bæði frá þinginu og almennt. Mér finnst þetta vera eitt af þeim frumvörpum sem slíkt á við. Eins og hér kom fram er verið að stytta bilið á hinni margumtöluðu armslengd, það er verið að stytta bilið frá því sem var. Við erum líka með mál til umfjöllunar sem varðar hærri bónusa í fjármálafyrirtækjum. Rætt hefur verið um að fjölga seðlabankastjórum. Allt ber þetta að mínu viti að sama brunni, þ.e. að stjórnmálamenn eru að reyna að auka vald sitt í staðinn fyrir að dreifa því.

Í ljósi þess að ég er nokkuð viss um að við erum sammála því að traust á fjármálstofnunum og Alþingi er ekki nægilega gott, telur hv. þingmaður að þetta sé góð leið til þess að við náum þeim markmiðum sem við þurfum svo sannarlega á að halda, þ.e. að byggja upp traust á bæði þingi og fjármálafyrirtækjum með því sem ég hér talaði um og því frumvarpi sem hér liggur fyrir?