144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef vissulega áhyggjur af því og hef alltaf áhyggjur af því þegar yfirvöld vilja taka sér meira vald. Það er óháð því hvort valdið tilheyri endilega ríkisstjórn eða sé í öðru formi. Ég trúi því að það séu til hættulegri valdastofnanir en yfirvöld, að ákveðnu leyti alla vega. Reyndar eru yfirvöld, ef út í það er farið, langmannskæðustu stofnanirnar nokkurn tíma, eftir minni bestu vitund.

Það eru til stofnanir sem hafa vald sem er ekki svo auðvelt að koma auga á. Ein slík stofnun eru bankar, sérstaklega réttur þeirra og geta til að búa til peninga, eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur komið inn á. Mér hefur fundist þetta tiltekna orðalag heldur einfalt, og það er það, en kannski er það nákvæmlega það sem þarf til að útskýra hvað á sér stað.

Hvað varðar að þessi tiltekna hæstv. ríkisstjórn sé að draga til sín mikið vald þá finn ég líka fyrir og hef miklar áhyggjur af því stundum hvernig einstaka aðilar virðast líta á vald. Það er reyndar óskylt þessu máli en stundum falla hér orð sem minna mig á það sem Benito Mussolini sagði einu sinni þegar hann var spurður að því út á hvað fasismi gengi — nú er ég ekki að líkja neinum hér við fasista. Ég hef leitað í sögubókum og ekki fundið skýra skilgreiningu; sú skásta sem ég hef fundið var þegar hann var spurður hver stefna fasistanna væri. Hann sagði: Stefna okkar er einföld, við viljum ráða. Þegar fólk er komið í þann gírinn að lausnin á vandamálum sé að það sjálft ráði hlutunum og hafi stjórn á þeim þá erum við komin í vanda.

Þetta er ástæðan fyrir því að það er svo mikilvægt að leggja áherslu á gegnsæi og lýðræði almennt. Vald skemmir. Það skemmir alla. Ég held að það sé meira að segja óháð innræti. Ég held að maður (Forseti hringir.) þurfi ekkert að vera vond manneskja til þess að fara illa með vald. Ég held að vald sé í grundvallaratriðum hættulegt fyrirbæri í hvaða höndum (Forseti hringir.) sem er.