144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir það sem hv. 4. þm. Norðaust. sagði, að þetta frumvarp væri skömminni skárra en það sem var reynt að koma í gegn seinast, þ.e. fyrir jól.

Vissulega er það lenska hér að eyða meiri peningum en fjárlög gera ráð fyrir. Sömuleiðis hefur maður tekið eftir því að menn vita alveg að fjárheimildir duga ekki fyrir því sem mun koma til á árinu. Ég er almennt á móti því, en að því sögðu býð ég ekki fram neinar heildarlausnir á því vandamáli því að það virðist vera stærra vandamál en svo að ein og ein hugmynd geti leyst það. Þetta er vissulega skárri leið til þess að gera þetta, enda vekur þetta mál upp þarfa umræðu sem fer ekki endilega fram þegar rætt er um fjárlög.

Hvað varðar einkavæðingarferlið í 8. gr. frumvarpsins þá tek ég undir með hv. þm. Frosta Sigurjónssyni að þar sé einn milliliðurinn tekinn burt, sem dragi úr armslengdinni sem hefur verið tíðrædd hér. Það þykir mér í grundvallaratriðum slæmt, sérstaklega þegar kemur að þessum tiltekna málaflokki. Það er eitt af því sem mér finnst óþægilegt við þetta. Þegar formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar segir slíkt og málið er sent til hv. fjárlaganefndar í kjölfarið þá velti ég fyrir mér hvort það sé vegna þess að menn vilji fá málið í nefnd þar sem þeir telja auðveldara að koma því í gegn án slíkra ábendinga. Þessi ábending er að mínu mati réttmæt og nauðsynleg og það á að bregðast við henni. Ég hef setið sem áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd, geri það að vísu ekki lengur, (Forseti hringir.) og mér hefur fundist verksvið þeirrar nefndar vera allt öðruvísi en það sem ég býst við af hv. efnahags- og viðskiptanefnd í þessu máli.