144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er bara túlkun hv. þingmanns á því sem gerst hefur. Ég hlustaði á umræðuna um lekaskýrsluna í dag og ég gat ekki séð að hv. þingmaður væri að gagnrýna það, ekki efnislega, þær röksemdir sem t.d. hv. þm. Brynjar Níelsson kom með eða hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Menn geta verið ósammála, ég er ósammála ýmsum. En það er eitt að við séum ósammála um hluti en annað að leggja það alltaf þannig út að hér sé um eitthvað vafasamt athæfi að ræða eða ætla mönnum mjög vafasama hluti.

Ég fór yfir dæmi þar sem hv. þingmaður var sjálfur að ræða um, bankabónusana. Hv. þingmaður veit alveg að bankabónusarnir eru í reglugerðarumhverfi Evrópusambandsins. Ég er á móti flestum gerðum af bankabónusum, ég get farið yfir það í löngu máli, og mörgu af því reglugerðarverki sem kemur frá ESB. En við erum í EES, þannig er það.