144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

tollar og matvæli.

727. mál
[15:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Nýlega birti Viðskiptaráð Íslands skýrslu um kostnaðinn sem tollvernd á matvæli veldur neytendum. Það kemur fram að sé litið til allra heimila mundi afnám tolla skila neytendum 10 milljörðum kr. á ári í formi lægra vöruverðs. Það eru um 80 þús. kr. á hvert einasta heimili landsins.

Hverju skilar þetta síðan í ígildi ríkisstuðnings, þessi vernd, þessi tollvernd, til landbúnaðarins? Hún skilar um 60% af því sem hún kostar neytendur. Þetta er svo léleg skattheimta, þetta er svo ofboðslega léleg leið til að styðja við landbúnaðinn; hún er svo ofboðslega kostnaðarsöm fyrir neytendur án þess að skila sér vel til landbúnaðarins.

Ef þetta væri gert á annan hátt, að ígildi stuðnings færi beint í formi peningastyrkja til landbúnaðarins, upp á þessa 6 milljarða; ef hægt væri að ná þeim inn með miklu skilvirkari skattheimtu eins og stefna þessarar ríkisstjórnar er að gera með virðisaukaskatti þannig að allir mundu græða. Neytendur mundu fá lægra vöruverð, lægra matvælaverð og landbúnaðurinn gæti fengið hærri styrki.