144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:39]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt athugasemd hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að ég var í síðustu ríkisstjórn. Ég var líka á þingi meðan sú ríkisstjórn sat sem áður var og þar áður; og í 20 ár hef ég setið hér (Gripið fram í.) og fylgst með því sem hefur verið að gerast hér í samskiptum hins pólitíska valds og fjármálavaldsins. Ég fylgdist með því úr fjarlægð, allt of mikilli fjarlægð því miður, þegar bankarnir voru gerðir að hlutafélögum og síðan seldir. Eða eigum við að segja gefnir? Ég held að það sé alveg hægt að nota það orð að hluta til alla vega. (GÞÞ: Ekki samkvæmt … ) Þeir voru færðir upp á silfurfat (GÞÞ: Ekki samkvæmt Bankasýslunni.) hér í kringum (Gripið fram í.) aldamótin. Það sem Alþingi á ógert er að framkvæma samþykkt þingsins um rannsókn á þeim málum.