144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður verður þá að útskýra betur fyrir þingheimi í hverju það felst þegar hann talar eins og það sé niðurstaða hans að Bankasýslan hafi staðið sig illa. Það litar allt hans mál, (GÞÞ: Ég var að tala um ríkisstjórnina.) að hún hafi bæði staðið sig illa og hún hafi kostað mikið. Hv. þingmaður talar um 400 milljónir á sex til sjö ára tímabili.

Staðan er einfaldlega þannig í dag að hún kostar 50 til 60 milljónir á ári og hún hefur haldið bærilega utan um þau verkefni sem henni hafa verið falin og reyndar miklu meira en bærilega. (Gripið fram í.) Hún hefur á þessum tíma, eins og ég rakti hér áðan, með töluvert íhaldssamri stefnu að vísu — eins og ég sagði áðan var ég kannski ekkert sammála henni framan af — án þess að selja eitt einasta hlutabréf endurheimt um 40% af þeim 140 milljörðum sem lagðir voru inn í viðskiptabankana. Og það skiptir máli.

Er hv. þingmaður þá að segja að það frumvarp sem hér liggur fyrir breyti engu, að það dragi ekki úr nábýli hins pólitíska og fjármálalega valds? (GÞÞ: Ég er að spyrja þig.) Er það ekki það sem skiptir máli? Er það ekki lærdómurinn sem við eigum að draga af kreppunni, bankahruninu, að það var allt of mikil nálægð? Það er það sem við vildum, ég og hv. þingmaður, á sínum tíma, (GÞÞ: Ég er að spyrja þig.) — já spurðu hv. þm. Steingrím J. Sigfússon um það. (Forseti hringir.) Ég er að minna hv. þingmann á það að við vorum sammála um að það þyrfti að auka vegalengdina þarna á milli eins og hægt var til þess að reyna að koma í veg fyrir að þetta gerðist aftur. En það er eins og hv. þingmanni sé algjörlega sama um það.