144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það var gleðidagur í gær, með tilliti til þess sem snertir alla landsmenn, losun gjaldeyrishafta, en ég vil líka og kannski fyrst og fremst beina sjónum að mínum heimabæ, Húsavík. Þar urðu gleðitíðindi, og ég vil þakka öllum sem komu að því að gera þennan draum Húsvíkinga að veruleika, að gera draum Húsvíkinga um að bærinn mundi vaxa og dafna að veruleika, að undanhaldið hætti, að við sæjum ekki lengur störf hverfa frá þessu bæjarfélagi. Sem betur fer býr þarna dugmikið fólk sem hefur trú á landinu sínu, á bænum sínum og það skilar sér svo sannarlega í því að nú munum við sjá fram undan mikla uppbyggingu, bæði hvað varðar þetta stóra fyrirtæki sem kemur til með að bæta 120 störfum inn í samfélagið, en eins og fram hefur komið hér hjá öðrum þingmönnum Norðausturkjördæmis mun þetta einnig hafa í för með sér afleidd störf. Og ég segi það að ég tel að þetta muni meðal annars renna stoðum undir þær menntastofnanir sem eru í héraði og við getum farið að leggja áherslu á að það verði boðið upp á fjölbreyttara nám. Við getum bara horft til Austfjarða og hvað gerðist þar þegar álverið kom á Reyðarfirði. Það þýddi að það varð aukning í framboði á menntun. Húsvíkingar og Þingeyingar hafa alltaf verið stórhuga og ég er stolt af mínu fólki.