144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[12:05]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla líka að taka þátt í þessari umræðu um lokafjárlög fyrir árið 2013. Það er alltaf svolítið skondið að ræða kannski gömul mál og í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við það þótt fólk takist hér á um þá tíð þegar ríkisstjórnarskipti eiga sér stað, að fólk vilji fá sitt sanngjarna kredit fyrir þá vinnu sem það lagði til málanna og ég held að það eigi við um alla flokka.

Mér þótti miður hvernig umræðan hófst hér áðan og tel það afskaplega erfitt og get illa sætt mig við það að fólki sé brigslað um að ganga erinda erlendra kröfuhafa en bera ekki hag landsmanna fyrir brjósti, þ.e. Íslendinga, því það var það sem hér var sagt. Hv. formaður fjárlaganefndar sagði líka að núverandi ríkisstjórn bæri hag landsmanna fyrir brjósti og var þá væntanlega að ýja að því að þeir sem á undan sátu hafi ekki gert það.

Ég tel ekki að fyrrverandi ríkisstjórn hafi staðið ein að því hvernig og hversu vel gekk í rauninni hægt og sígandi að komast upp á við. Það er auðvitað fólkið í landinu sem stendur á bak við það. Það er náttúrlega svo með ríkisstjórn á hverjum tíma að hún hefur á bak við sig fólk sem þarf að lifa við þær ákvarðanir sem teknar eru. Sem betur fer tók fólkið mjög virkan þátt í því með okkur árin eftir hrun að aðstoða við það og tók á sig ýmsar byrðar vegna þess að landið var nánast gjaldþrota.

Því er gjarnan borið við þegar talað er um skattamálin að verið sé að fylgja ákvörðunum fyrri ríkisstjórnar. Ég hefði þá gjarnan viljað sjá það gert sem oftast en ekki bara stundum því að það er kannski það sem birtist manni í þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið eftir að núverandi ríkisstjórn tók við, að sumt er afnumið ef það hentar og passar inn í einhverja stefnu og sagt að það sé vegna þess að það hafi verið sett á tímabundið. En svo eru aðrar stefnur og aðrar ákvarðanir kannski ekki eins hentugar og þess vegna er þeim þá ekki fylgt, þ.e. þeim sem teknar voru af fyrri ríkisstjórn.

Engin launung er á því að tekið var við betra búi en gert var ráð fyrir og það endurspeglast meðal annars í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem núverandi fjármálaráðherra hefur lagt fram. Þar er að finna súlurit sem sýnir þetta ágætlega. Þess vegna segi ég, án þess að vera í einhverju togi um það, að ekkert óeðlilegt er við það, því að mjög erfiður tími fór í hönd eftir hrunið, að fólk vilji að minnsta kosti fá sinn skerf í því, en ekki að sagt sé um það að það hafi ekki unnið vinnuna sína í þágu þjóðarinnar. Ég kæri mig að minnsta kosti ekki um það.

Varðandi það að fjárlaganefndin standi öll að þessu áliti, þá er þetta auðvitað eitthvað sem er búið og gert. Við höfum gert grein fyrir ákveðnum athugasemdum og öðru slíku og ekkert óeðlilegt við það þegar verið er að taka eitthvað saman eftir á að hér komi sameiginlegt nefndarálit. En við gerum athugasemdir við mörg atriði. Við höfum staðið að því og þeirri orðræðu í fjárlaganefnd að vera samhent í að reyna að lagfæra og bæta hvernig ákvarðanir eru teknar. Þess vegna kemur það á óvart og veldur vonbrigðum, og ég trúi ekki öðru en meiri hlutinn sé mér sammála um það, að þær ákvarðanir sem voru teknar og komu inn í þingið um daginn varðandi til dæmis vegamál, innviði og annað slíkt skuli hafa farið fram hjá bæði formanni og varaformanni fjárlaganefndar og þeim samgönguyfirvöldum sem eiga um það að fjalla. Ég tel það ekki góða stjórnsýslu frekar en annað og gagnrýni það. Og af því að við erum alltaf að tala um að reyna að bæta áætlunargerðina, þá held ég að það hljóti að vera eitt af því sem við viljum ekki að sé gert með þessum hætti. Það kemur auðvitað inn á fjáraukann sem núverandi formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa talað gríðarlega mikið um að eigi ekki að nýta með þeim hætti sem gert hefur verið í áratugi, því miður, og ég tek undir það. Mér finnst að ekki eigi að gera það og ég vona að við þurfum ekki að standa oft frammi fyrir slíku.

En það sem er kannski gagnrýnt töluvert í áliti okkar er hvernig hlutirnir eru færðir. Það vantar þetta samtímabókhald, að það sé fært um leið og hlutirnir gerast en ekki að verið sé að leiðrétta liðina mörgum mánuðum síðar, hvort sem um er að ræða inneignir, gjaldfærslur eða eitthvað slíkt, og jafnvel eru lokafjárlögin notuð að einhverju leyti sem hálfgerð fjáraukalög vegna þess að verið er að leiðrétta, lagfæra, fella niður og ýmislegt í þeim dúr. Ég held að það sé eitt af því sem við viljum breyta.

Það má svo líka velta fyrir sér að þau opinberu fjármál sem hafa verið til umræðu gera það að verkum að þetta fer að vera með síðustu skiptunum, þ.e. ef þau fara óbreytt í gegn, sem við fjöllum um og getum haft áhrif á, þ.e. það sem fram kemur í lokafjárlögum, af því að hér getum við tekið þetta inn í nefnd og rætt og gert athugasemdir við, en við getum það ekki verði frumvarp um opinber fjármál að óbreyttu að lögum. Það er eitt af því sem við höfum aðeins velt fyrir okkur, þ.e. umfjöllunin. Þá kemur sú umfjöllun ekki, hún er í rauninni bara tilkynnt í fjárlaganefnd en ekki rædd í þinginu. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að valdið fjarlægist um of ef þessi breyting kemur til með að eiga sér stað. Það eru í rauninni um þúsund færslur hér undir sem við verðum þá að láta frá okkur, þ.e. umfjöllunina um það allt. Það er eitt af því sem við eigum að taka heiðarlega umræðu um. Viljum við hafa það þannig eða einhvern veginn öðruvísi? Það er alveg óhætt, af því að nú er frumvarp um opinber fjármál komið hingað inn, að velta því fyrir okkur hvaða breytingar og áhrif það hefur, m.a. í tengslum við lokafjárlög.

Í þessu tiltekna frumvarpi til lokafjárlaga eru tekin nokkur dæmi. Það vantar að fært sé á samtíma og í rauntíma ýmsar fjárheimildir, og svo er verið að fara fram úr í ýmsum liðum sem eftiráskýringar koma við og fjárlög ekki virt. Það er mjög bagalegt að við stöndum frammi fyrir því að það sé gert með þeim hætti, með vitund og ég vil segja heimild ráðherra og ráðuneyta hverju sinni. Ef það væri ekki gert þá færu liðir væntanlega ekki fram úr.

Ég hef aðeins gagnrýnt líka, þrátt fyrir að ég sé að tala um að við fjöllum ekki um lokafjárlög með þessum hætti til framtíðar, að frumvarpið og fjárheimildirnar og hvernig þetta er sett fram sé ekki aðgengilegt. Ef þú ætlar að lesa eitthvað til dæmis í fylgiskjali 2 sem er aftast á bls. 121 í lokafjárlögunum og bera það saman við bls. 28, þá kemur ekki fram hvaða fjárhæðir lagt er til að verði fluttar yfir heldur kemur bara lokastaða og þú veist í rauninni ekki hvort lagt er til að fjárheimildir verði fluttar yfir sem koma fram í lokadálkinum, heldur sérðu einungis lokaniðurstöðuna. Þetta er óaðgengilegt og það er eitt af því sem við eigum að ræða. Við þurfum að nálgast það með þeim hætti, ef það verður í einhverju slíku formi, að við höldum áfram að ræða það, hvernig við getum gert það auðveldara fyrir ekki bara okkur sem sitjum í fjárlaganefnd og fáum auðvitað töluverða umfjöllun við að skilja það, heldur líka aðra þá þingmenn og aðra sem vilja yfir höfuð gefa sér tíma til að lesa þetta. Því til viðbótar er ekki sérstaklega auðvelt fyrir þingið að átta sig á því til dæmis að textinn sem kemur við greinarnar er kannski ekki mjög skýr varðandi fjárheimildirnar sem lagt er til að flytjist yfir á milli ára. Það er til dæmis ekki yfirlit yfir ólokin verkefni og svo þekkjum við dæmi þess að ár eftir ár eru bæði plúsar og mínusar fluttir yfir á milli ára á sömu liðunum og við höfum kannski ekki neinar skýringar á því. Af því að ég hef talað mikið um Vegagerðina þá eru fluttir yfir tæpir 1,8 milljarðar á framkvæmdalið Vegagerðarinnar og maður veltir fyrir sér hvort það þyrfti ekki að koma fram í texta, eða einhvers staðar annars staðar, hvaða framkvæmd það var sem ekki var unnt að fara í og var frestað, hvort margar framkvæmdir séu á bak við þetta, eða hvernig þetta er. Að sama skapi er, eins og kemur fram í ríkisreikningi, neikvætt eigið fé Vegagerðarinnar vegna þess að ágreiningur er á milli ráðuneyta hvernig ber að fara með það. Það er líka eitt af því sem er í rauninni óásættanlegt að hangi inni sem slíkt.

Á bls. 38 er til dæmis lagt til að felldur verði niður styrkur til nýsköpunarfyrirtækja og það er ekki rökstutt, bara sagt að halli sé 105 millj. Það kemur ekki fram í ríkisreikningi af hverju það er og eins og við vitum er óheimilt að veita hærri fjárframlög en koma fram í fjárlögunum. Því má spyrja: Hvers vegna voru veittir hærri styrkir en fjárlög heimiluðu eða hvar eru þær heimildir? En síðan er það fellt niður, og þá með hvaða heimild? Það er hluti af því sem vert er að spyrja um.

Af því að ég talaði um samtímabókhald þá er öll starfsemi ríkisins á ólíkum fjárlaganúmerum. Vegagerðin er á einu og aðrir liðir undir henni eru á undirnúmerum. Eins og ég sagði áðan með framkvæmdirnar og afganginn, þetta myndar svo sem líka hluta af betri afkomu ríkissjóðs af því að þá er gjaldfærslunni frestað, en svo kemur hinum megin einhvers staðar það markmið fjárlaganna um að framkvæma þetta eða hitt, en það hefur ekki náð fram að ganga einhverra hluta vegna.

Við höfum rætt mikið um hálkuvarnir og snjómokstur á þjóðvegunum, þar hafa áætlanir verið í lágmarki til allt of margra ára. Eðli málsins samkvæmt er tæpur milljarður sem verður neikvæður hjá Vegagerðinni. Sumir hafa sagt að þeir skilji ekki hvers vegna ekki er hægt að áætla betur fyrir þessu. Það er kannski að einhverju leyti vegna þess að Vegagerðin, eins og aðrar stofnanir, er sett í þá þröngu stöðu að hafa ekki eins háan ramma og hún þyrfti, og þess vegna er alltaf verið að reyna að áætla allt í lágmarki, og þess utan vitum við ekki hvort vetur verður snjóþungur eða hvort mikið verður um ísingu, því að risastór hluti af þessu er líka nefnilega orðinn til vegna hálkuvarna. Þær hafa aukist alveg gríðarlega. Við fengum skýringar á því í fjárlaganefnd um salt sem var keypt en reyndist svo ekki nægilega gott o.s.frv. Allt kostar þetta peninga. Allt salt til dæmis var bara uppurið í landinu, þannig að margt vindur upp á sig sem ekki er fyrirséð. Svo hafa gríðarlega snjóþungir vetur verið sem hafa orðið til þess að farið er fram úr áætlunum.

Ef við drögum allt saman hjá Vegagerðinni, eins og kemur fram í samantektinni, þá er plús upp á 754 millj. kr. Það kemur til út af frestun á framkvæmdum. Hallinn á þjónustunni er rúmar 900 millj. kr., hallinn á styrkjum til sérleyfishafa og ferja 266, innanlandsflugs 15 o.s.frv., en af því að hitt er svo stór tala þá verður þetta niðurstaðan. En það sem ég er fyrst og fremst að gagnrýna er ekki bara þessar tölulegu hliðar heldur það að skýringarnar eru ekki til staðar. Ef maður mundi vilja fletta sig í gegnum þetta ár frá ári, velta fyrir sér hvaða framkvæmdir eða þjónusta eða eitthvað var ekki veitt, gekk ekki eftir eða fór fram úr áætlun, þá getur maður ekki lesið sig til um það og mér finnst það vera mjög bagalegt.

Virðulegi forseti. Þetta var nú kannski að fara aðeins ofan í einhverja tiltekna liði af því að þetta, eins og hér var rakið áðan, á að flytja samhliða ríkisreikningi en hefur ekki tekist fram til þessa og þess vegna kannski notað að hluta til eins og fjáraukalög og ýmsar færslur settar fram sem ætti ekki að gera. Hér var líka tekið fram og aðeins rakið áðan að staðan sem við vorum að kýtast um áðan, þ.e. á milli ríkisstjórna, er staðfest í Markaðspunktum Arion banka og hún er staðfest í ríkisfjármálaáætlun núverandi fjármálaráðherra og í sjálfu sér allt í lagi að því sé haldið til haga.

En í restina held ég að ég taki aðeins dæmi um Atvinnuleysistryggingasjóð af því að þetta á að leggja fram saman. Þar er í ríkisreikningi sýndur mismunurinn sem er bundinn í eigið fé en er ekki sett á höfuðstól. Það eru mörg slík dæmi. Ég spurði ráðherra í ræðu minni, þegar hann loks mælti fyrir frumvarpinu, því að við tókum þetta fyrir í nefndinni áður en mælt var fyrir því, um landlækni og Lýðheilsusjóð á bls. 76 og það var rakið í nefndarálitinu hvers vegna sá mismunur er. Mismunurinn er vegna þess að Lýðheilsusjóður er gerður upp undir fjárlagalið landlæknis en er samt sem áður sérstakur fjárlagaliður. Ég held að hinn almenni þingmaður átti sig ekki á þessu. Svo er spurning um hversu ítarlega fólk vill fara ofan í hlutina, en ég held að þingmenn geri of lítið af því að sitja yfir og fara ofan í fjárlög, fjáraukalög og lokafjárlög. Ég held að það væri afar mikilvægt og mundi skýra ýmislegt fyrir þeim þingmönnum sem eru ekki í fjárlaganefnd eða efnahags- og viðskiptanefnd, en þær fara svolítið í tekjuhliðina.

Ég vil ljúka máli mínu á því að segja að ríkisstjórnin sú fyrri og þessi sem nú situr hafa sem betur fer báðar það að markmiði að lækka skuldir ríkissjóðs. Það kemur fram í riti sem fylgdi með og var gefið út haustið 2012, Ríkisfjármálastefna og þjóðhagsáætlun. Þar er sérstaklega tekið fram, með leyfi forseta:

„Því verður það áfram forgangsmál að lækka jafnt og þétt skuldir ríkisins eftir að heildarjöfnuði hefur verið náð.“

En við stöndum frammi fyrir því að til þess eru notaðar mjög ólíkar aðferðir af hálfu núverandi ríkisstjórnar og þeirrar sem sat áður.