144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[12:37]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir þetta andsvar. Það kom fram hjá formanni fjárlaganefndar í framsögu frekar en andsvari áðan um skattalækkunarstefnuna að hún teldi að sýnt væri að hún skilaði samfélaginu eða ríkinu auknum tekjum. Ég fór ágætlega yfir þessa brauðmolakenningu um daginn. Það var nýleg góð rannsókn, stór og mikil rannsókn frá Cambridge-háskóla gerð opinber hér og hún hrindir skattstefnu hægri manna algerlega. Þess vegna tek ég undir að þetta sé eitthvað sem við eigum því miður eftir að bíta úr nálinni með, ef svo heldur fram sem horfir og hægri stefnan fær að halda áfram.

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra vegna ríkisfjármálaáætlunarinnar, af því að við höfum til að mynda glímt við sjúkrahúslyfin og samninga á milli sjúkratrygginga og spítalans varðandi S-merkt lyf og það hefur komið fram að jafnvægi sé náð og ekki verði framúrkeyrsla á þessu ári. Nú er ég ekki að halda því fram að þetta sé liður sem getur vaxið út í hið óendanlega og allt það en við erum að tala um að fólk fær ekki lyf sem getur orðið til þess að það lifi, til þess að það eigi sér líf, vegna þess að sjóðurinn er tómur sem á að borga þau. Ég spurði ráðherrann því hvort hann teldi ekki að komin væri uppsöfnuð þörf vegna eftirhrunsáranna og líka vegna þess að á góðæristímanum voru ekki settir neinir sérstakir peninga í þetta. Hann gat ekki svarað því öðruvísi en að hann teldi að jafnvægi væri náð, sem ég er ekki sammála.