144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að taka undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni og stefnu Pírata um að gera fjárlög og ríkisreikninga og þau gögn sem þarf til að skilja hvort tveggja opinbert. Þetta er hugsun sem mér var svolítið framandi á sínum tíma og ég velti þessu töluvert fyrir mér en ég held að þetta sé rétt stefna. Borgararnir eiga heimtingu á því að fá að vita hvernig öll þau hundruð milljarða sem ríkið fyrir þeirra hönd heimtir inn sem tekjur sínar er varið. Það ætti að vera hægt að komast inn á þetta á netinu og ekki bara sjá tölurnar og málaflokkana heldur líka upplýsingar á bak við hvað eina. Það er mjög mikilvægt.

Þegar ég settist ungur þingmaður í fjárlaganefnd var gríðarleg vinna að koma sér inn í „terminológíuna“, með leyfi forseta, og hvernig átti að leita uppi í fjárlagafrumvarpi einstakar stærðir og málaflokka, það var erfitt. Og enn er maður að rekast á þingmenn sem hafa setið töluvert lengi og rata kannski ekki svo auðveldlega um það völundarhús. Á þeim tíma var það ekki hægt nema með einhvers konar sérfræðilegri aðstoð. En það á að vera hægt utan úr bæ fyrir fólk að fara inn í frumvörpin, inn í ríkisreikninginn, fjáraukalög og lokafjárlög og skoða hvað eina sem það vill þannig að það fái einhvers konar a.m.k. vísandi eða tæmandi mynd af því í hvað það fer.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann vegna þess að hann tilheyrir stjórnmálahreyfingu sem hefur barist fyrir þessu úti í Reykjavíkurborg: Hvernig hefur þetta gefist þar og á hvaða stigi er það þar?