144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[11:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegur forseti. Það er nefnilega þannig að menn hafa haft ólíkar skoðanir milli ríkis og borgar á þessum flugvallarmálum. Við vitum að sjónarmið meiri hlutans í Reykjavík er mjög eindregið, og reyndar fleiri, að flugvöllurinn skuli víkja úr Vatnsmýrinni, það kemur fram í aðalskipulagi, en ríkið hefur haft önnur sjónarmið. Það hefur lengi verið vandræðalegt, að mér hefur fundist, hversu illa mönnum hefur tekist að ná saman þótt sjónarmiðin séu ólík. Það verður alltaf þannig að annars aðilinn getur ekki bara ráðið öllu, þarna verður að koma einhver önnur niðurstaða, held ég. Það er líka mjög mikilvægt að menn tali bara hreint út um hvernig hlutirnir eru og reyni ekki að fela þá og mála þá einhverjum öðrum litum. Þar er það bara þannig að sjónarmið ríkisins hefur verið það að Reykjavíkurflugvelli sé ágætlega borgið þar sem hann er þar til annar flugvöllur er tilbúinn, hvenær sem það verður.

Varðandi það sem þingmaðurinn spurði sérstaklega að er það líka þannig í niðurstöðunni að menn tala um sjónarmið millilandaflugsins samanber innanlandsflugið, hvernig það geti tengst saman. Þá verðum við líka að líta til þeirrar gríðarlegu fjárfestingar sem ríkið (Forseti hringir.) stendur núna í á Keflavíkurflugvelli. Möguleikar ríkisins í fjárfestingum eru mjög þröngir nú um stundir þannig að (Forseti hringir.) það er mjög erfitt fyrir ríkið að fara að ætla sér að setja gríðarlega fjármuni í þetta og hitt o.s.frv., hversu mikilvægt sem það er, þegar við getum ekki tryggt slíka fjármuni.