145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

flóttamannamálin.

[12:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða um flóttamannamálin við hæstv. ráðherra vegna þess að það sem hefur komið fram í fjölmiðlum undanfarið hefur einkennst töluvert mikið af svörum á borð við: Tölvan segir nei. Á sama tíma erum við hér innan húss með ákveðnar hugmyndir um það hvernig megi gera þetta. Um það hefur ríkt ákveðin samstaða og töluvert mikil samstaða með ráðherranum. Ráðherrann hefur lýst því hér yfir að ekki eigi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar að senda hælisleitendur til baka til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands og jafnvel sé verið að skoða Króatíu í því sambandi. Ég tel að hér innan húss hafi verið talsvert mikil samstaða um þetta og stuðningur við ráðherrann í því.

Þess vegna hefur kannski mörgum brugðið við fregnir af því að hér segi tölvan ansi oft nei í kerfinu og þá veltir maður fyrir sér samspili kerfisins og stefnumörkunar og sjónarmiða héðan, þ.e. hvernig þetta fer allt saman. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að fara vandlega yfir það í gær í fjölmiðlum og veit vel að auðvitað eru dæmi eins og af einni sýrlensku fjölskyldunni sem verið hefur í fjölmiðlum og er komin með hæli í Grikklandi og þess vegna eru kannski önnur sjónarmið hvað hana varðar.

Við erum samt líka með mannúðarsjónarmið. Við getum gert ýmislegt, við getum ákveðið að þó að fjölskylda sé komin með hæli í Grikklandi séu bara gríðarlega óvenjulegar aðstæður uppi. Þar er snúið ástand, fólk er komið hingað og þá veltir maður fyrir sér hvort við eigum í alvörunni að senda fólk aftur til baka á götuna í Grikklandi. Ég held að við þurfum að taka almennilega umræðu um þetta hér.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Ef menn lesa svona stíft í lagabókstafinn og regluverkið, (Forseti hringir.) hvað getum við þá gert til að breyta því þannig að mannúðarsjónarmiðin við þær óeðlilegu aðstæður sem við erum að horfa upp á verði ofan á frekar en tölvan?