145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:03]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Ég held mér takist ekki að útskýra það til fulls í stuttu andsvari, en í mjög stuttu máli og einfaldaðri mynd er hægt að segja að samfélagsbankar eins og þeir sem eru að ryðja sér til rúms víða í heiminum, líti á það sem hlutverk sitt að styðja við uppbyggingu raunhagkerfisins fremur en að vera í fjármálavafstri og fjárfestingabixi sem hefur mjög litla tengingu við raunverulega atvinnu- eða verðmætasköpun. Það er gríðarlega mikill munur á því tvennu. Mjög mikið af þeirri bankastarfsemi sem við höfum séð þróast á undanförnum áratugum í heiminum lýtur ekki að því að fjárfesta í störfum og búa til ný verðmæti, heldur að kaupa og selja verðmæti sem þegar eru til, á sífellt hærra verði, eða að gerningum sem eru veðmál um það hvernig verð á einhverjum öðrum gerningum þróast. Það er bankastarfsemi sem tengist engan veginn því að bæta lífskjör okkar eða sem býr til störf eða mat eða nokkuð annað sem gagnlegt er, heldur eru þessir bankar orðin einhvers konar peningaspilavíti. Samfélagsbanki tekur ekki þátt í slíku peningaspilavíti. Hann horfir í kringum sig á nærsamfélag sitt, sem er þá Ísland, og segir: Hvernig get ég komið að uppbyggingu innviða þessa samfélags? Við þurfum banka til þess. Við þurfum að taka lán í bönkum til að byggja hús, skóla, verksmiðjur, eða til að stuðla að nýsköpun af öllu tagi. Þar þarf alltaf einhverja aðkomu banka og að sparifjáreigendur leggi fram peninga og kannski vil ég hafa skoðun á því í hverju þeir fjárfesta. Þeir vilja ekki lengur vera blindir á það í hvað peningarnir fara og hvers konar starfsemi fjárfest er í.

Þótt furðulegt megi virðast hafa þessir samfélagsbankar skilað betri arðsemi til lengdar en spákaupmennskubankarnir sem sífellt eru að tútna út og hrynja. Það er rannsóknarefni út af fyrir sig því að raunhagkerfi nefnilega er nokkuð traustur (Forseti hringir.) fjárfestingarkostur. Það mætti halda um þetta lengri ræðu en ég sé að tími minn er á þrotum.