145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Umræðan er oft svolítið sérstök hér. Í umræðu um fjáraukann duttum við eiginlega í umræðu um samfélagsbanka. Ég verð að viðurkenna að mér finnst, virðulegi forseti, ég vona að ég fái ekki miklar ávirðingar, þetta vera svolítið eins og Groundhog Day sem ég kann ekki þýðinguna á.

Ef menn lesa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð geta þeir séð mjög svipaðar umræður. Ég var þá ásakaður um að taka upp málefni Íbúðalánasjóðs hvað eftir annað. Það var ásökunin. Ég varaði við ýmsu sem varðaði Íbúðalánasjóð og barðist fyrir því og var skammaður blóðugum skömmum fyrir að voga mér að ræða sjálfan Íbúðalánasjóð vegna þess að Íbúðalánasjóður væri samfélagsbanki, hann væri enginn venjulegur banki og það skyldu menn bara skilja. Þá mátti ekki gagnrýna hann neitt sérstaklega. Þess vegna var hann t.d. undanskilinn eftirliti Fjármálaeftirlitsins.

Það er mjög mikil einföldun hjá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni að vera með þessa kenningu um Íbúðalánasjóð. Hann var undanskilinn ýmsu eftirliti hjá Fjármálaeftirlitinu vegna þess að hann var samfélagsbanki, hann var miklu betri. (FSigurj: Ekki samfélagsbanki heldur ríkisbanki.) — Heyrðu, hv. þingmaður, nú er það þannig, með fullri virðingu, að þú ert nýmættur á svæðið en ég er búinn að vera hérna í smátíma. [Hlátur í þingsal.] Ég hvet þig bara til að lesa þessa skýrslu. Ég get leitt þig í gegnum helstu kaflana því að þessi umræða var öll tekin og öll varnaðarorð voru að engu höfð. Við þekkjum niðurstöðuna.

Ég ætla að leyfa mér að fara með sömu varnaðarorð og áður þegar menn ætla að fara af stað með hugmyndir um nýjan samfélagsbanka. Það var farið út í hærra lánshlutfall. Það var farið í samkeppni við einkabankana á íbúðalánamarkaði. Það var sérstakt markmið að halda markaðshlutdeildinni. Íbúðalánasjóður var með algera sérstöðu miðað við þá banka sem við berum okkur saman við í öðrum löndum, til dæmis annars staðar á Norðurlöndum. Menn geta lesið þingræður mínar um það. Þegar ég skoðaði það á sínum tíma reyndu menn að taka ákveðna þætti, eins og köldu svæðin í þeim löndum sem við berum okkur saman við, og sjá til þess að ríkisvaldið gripi inn í fyrir það fólk sem var að byggja sér hús eða keypti sér hús og fékk ekki lán vegna þess að það var markaðsbrestur og bankar voru ekki tilbúnir til að lána. Við gerðum það öðruvísi hér með afleiðingum sem við þekkjum. Ég held að því miður hafi ekki þurft að pína Íbúðalánasjóð til að lána síðan öðrum bönkum til að lána áfram.

Varðandi áhættu bankakerfisins almennt — hana ættum við að ræða meira — þá er í grófum dráttum mikil kerfisáhætta hjá þessum bönkum, eins og hv. þingmaður kom inn á. Við getum sagt að þetta sé vandamál í vestrænum löndum. Bandaríkjamenn hafa minna umfang í bankastarfseminni, sem er gott, en við í Evrópu höfum regluverk frá Evrópusambandinu sem gengur í rauninni út á tvennt, annars vegar innstæðutryggingakerfi sem er orðið mjög bólgið í Evrópusambandinu og komin ríkisábyrgð á þvert á það sem áður var og hins vegar erum við með kerfisáhættu sem gerði að verkum að eigendum bankanna, eins og komið hefur í ljós í Evrópusambandsríkjunum, var í rauninni öllum bjargað. Jú, einhverjir bankar fóru á hausinn en mörgum var bjargað. Bandaríkjamenn sem gerðu það.

Ef við skoðum heildarmyndina: Til þess að lágmarka freistnivanda eigenda bankanna, því að þeir vita að þeim verður bjargað, erum við með flókið eftirlitskerfi sem á að koma í veg fyrir bankahrun. Það hefur ekki gengið eftir. Eftir síðasta bankahrun, 2008, voru ýmsar reglur meira að segja hertar verulega en það breytti því ekki að bankar fóru á hausinn eftir að nýju reglurnar komu. Til dæmis fór stór hollenskur banki, Fortis, á hausinn nokkrum vikum eftir að hann stóðst nýja, flotta álagsprófið. Þetta er nokkuð sem við ættum að ræða því að þetta eru stóru málin. Það er alveg ljóst að þó svo menn láti ríkið eiga og standa í samkeppnisrekstri og bankastarfsemi þá eru þeir ekki að lágmarka áhættuna heldur að auka hana enn frekar. Þrátt fyrir allt tóku eigendur bankanna og kröfuhafarnir, þeir sem fjármögnuðu bankana, stærsta kostnaðinn af íslenska bankahruninu. Þeir stóðu uppi með stærsta reikninginn. Mér fannst það vera sanngjarnt því að þeir tóku áhættuna. Ef við hefðum farið leiðir eins og ýmsar aðrar þjóðir í Evrópu gerðu og Bandaríkin þá hefði miklu stærri reikningur farið á skattgreiðendur.

Við erum að ræða fjáraukann. Fjáraukinn á að koma til vegna óvæntra útgjalda, t.d. náttúruhamfara og annars slíks. Það er ýmislegt hér sem er með þeim hætti. Það er líka margt ánægjulegt sem ég held að ekki hefði verið hægt að áætla. Við hljótum að gleðjast yfir og hrósa hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra fyrir að sjá vaxtagjöldin lækka um 5.700 millj. kr. Það hlýtur að vera afskaplega gleðilegt. Stóra myndin er mjög góð. Hins vegar er ýmislegt, eins og kom t.d. fram hjá hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur, sem við hefðum átt að gera ráð fyrir. Ég er að vísu ekki sammála því öllu. Ég nefndi áðan að við gátum ekki séð fyrir náttúruhamfarir sem ekki þarf að fjölyrða um. Þess vegna hafa fjárframlög hækkað eftir því sem mér skilst til Vatnajökulsþjóðgarðs, Umhverfisstofnunar, Mannvirkjastofnunar og Veðurstofunnar.

Ég held að það sé ánægjulegt en ekki vandamál að barnabætur og vaxtabætur séu að lækka. Það getur ekki verið markmið að fólk fái bætur. Í draumaþjóðfélagi væru allir með það há laun að þeir hefðu ekki rétt á barnabótum og vaxtabótum. Það væri ótrúlega gott mál. Við getum ekki nálgast þetta þannig að fólk verði að fá bætur með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum. Ég skil þess vegna ekki þá gagnrýni.

Hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir minntist á Heilsugæsluna Salahverfi í Kópavogi og lagði að jöfnu við heilsugæsluna á Akureyri. Þar er ólíku saman að jafna vegna þess að það er ákveðið módel í Salahverfinu, sem var gert fyrir mörgum árum og hefur reynst vel fyrir skattgreiðendur og þá sem fá þjónustuna. Kannanir hafa ítrekað sýnt það. Ég held að við ættum að taka það módel upp í auknum mæli. Þannig módel er ekki á Akureyri eftir því sem ég best veit. Síðan geta menn réttilega bent á að áætlanagerðin mætti vera betri þó að þarna sé einungis um 20 milljónir að ræða.

Sama má segja um sjúkratryggingarnar eins og hér hefur komið fram. Gengið var til samninga við sérfræðilækna svo að menn hafi það alveg á hreinu. Áður en gengið var til samninga við sérfræðilækna var kostnaðarhlutdeild sjúklinga mjög há. Þá var ekki hægt að hafa neina stjórn á því. Meðan sérfræðilæknar eða aðrar slíkar stéttir eru án samninga geta þær sett þau verð sem þær vilja. Þær eru ekki bundnar af neinum samningum. Þær eru með ákveðna upphæð frá ríkinu og sjúklingurinn greiðir mismuninn. Það voru gerðir samningar til að lækka kostnaðarhlutdeild sjúklinga verulega. Hins vegar gerði ríkisstjórnin meira og lækkaði kostnaðarhlutdeild sjúklinganna enn meira og breytti ekki reglugerðinni eins og lagt var upp með. Úr því að menn gerðu það hefðu þeir auðvitað átt að sjá það strax og gera það.

Ef menn gagnrýna að gerðir séu samningar við sérfræðilækna þá eru þeir að tala um að við eigum að breyta verulega frá því kerfi sem við erum með núna og hafa þá tvöfalt heilbrigðiskerfi, ekkert ósvipað því kerfi sem var hjá tannlæknum fyrir ekki löngu síðan þar til síðasta ríkisstjórn, undir forustu fyrrverandi ráðherra, Guðbjarts Hannessonar, samdi við tannlækna. Það voru mjög dýrir samningar en ég held að við séum flest mjög ánægð með að tannlækningar hafi komist undir þá samninga. Ef menn vilja ekki að gerðir séu samningar við sérfræðinga, sama hvort það eru tannlæknar eða aðrir, þá eru þeir að tala um verulega kerfisbreytingu, svo að menn séu algerlega meðvitaðir um það. Þá eru menn að tala um einhliða gjaldskrá frá ríkisvaldinu og að sjúklingarnir borgi mismuninn, sama hver hann er. Samningar gera það aftur á móti að verkum að viðkomandi sérfræðingur er bundinn af því að hafa kostnaðinn ekki meiri en sem nemur ákveðinni upphæð og þar af leiðandi er kostnaðarhlutdeild sjúklings fest.

Virðulegi forseti. Hér eru líka gamlir draugar. Það er fullkomlega óskiljanlegt að okkur Íslendingum, sem erum jú partur af mannkyninu sem fór fyrst til tunglsins árið 1968, hafi ekki enn tekist að búa til sveiflusjóð þegar kemur að snjómokstri á Íslandi. Ég held að það verkefni sé ekki svo stórt að ekki sé hægt að áætla fyrir því. Ég vona að við sjáum þetta aldrei aftur í fjáraukalögum. Það er alveg öruggt að það mun snjóa á Íslandi, stundum mikið og stundum lítið. Það ætti ekki að vera flókið að áætla yfir eitthvert tímabil þannig að þegar snjóar lítið geti menn fært það á milli ára en þegar snjóar mikið megi nýta snjóléttu árin.

Utanríkisráðuneytið er með 250 milljónir til mannúðarmála, sem ég held að sé ófyrirséð. Ég held að menn hafi ekki getað séð flóttamannastrauminn fyrir.

Síðan eru hér fleiri gamlir draugar, t.d. útsendingar til sjómanna. Það er eitthvað sem við ætlum að gera og Ríkisútvarpið á að sjá um það. Ríkisútvarpið fær 45 milljónir á fjáraukanum og gott betur en það. Sömuleiðis er RÚV heimilt, samkvæmt lið 7.11, að ganga til samninga við Reykjavíkurborg um skipulag og sölu á lóðarréttindum við Efstaleiti 1 í Reykjavík enda verði andvirði hlutar RÚV ohf. nýtt til að lækka skuldir félagsins. Hér erum við að tala um verulegar fjárhæðir. Það verður að segjast eins og er að núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur svo sannarlega forgangsraðað í þágu Ríkisútvarpsins, eins og skýrslan sem tekin var saman varðandi Ríkisútvarpið sýnir augljóslega. Það verður ekki séð enn sem komið er að uppfyllt hafi verið þau skilyrði sem sett voru í síðustu fjárlögum varðandi viðbótarframlag upp á 181,9 millj. kr. til Ríkisútvarpsins en þau skilyrði átti ráðherranefnd um ríkisfjármál að samþykkja í lok mars 2015. Ég veit ekki til þess að það hafi verið gert, en ég veit að þær upplýsingar sem við fengum í fjárlaganefnd frá forustumönnum Ríkisútvarpsins, eins og ég hef minnst á áður, voru ekki réttar. Því verður ekki breytt, virðulegi forseti. Það er hins vegar mikilvægt að við tökum saman núna það sem snýr að Ríkisútvarpinu og vinnum það sameiginlega bæði í fjáraukanum og fjárlögunum. Það verður ekki annað séð en að það að selja lóðarréttindi og nýta til að greiða niður skuldir Ríkisútvarpsins muni bæta hag Ríkisútvarpsins verulega. Það er auðvitað í eigu skattgreiðenda og eignir þess verða ekki seldar nema hv. Alþingi ákveði það fyrir hönd þeirra. Við erum að tala um verulegar fjárhæðir sem munu auðvitað létta enn frekar á rekstri Ríkisútvarpsins.

Burt séð frá því hvað mönnum finnst um einstaka stofnanir, sama hverjar þær eru, þá skiptir máli að við göngum þannig frá málum að reksturinn verði sjálfbær og standist. Hið sama verður að gilda fyrir allar stofnanir. Hér hefur verið rætt um að við eigum að vera með aga í ríkisfjármálum og gera áætlanir til lengri tíma, en þá verðum við að láta það gilda yfir allar stofnanir. Sömu reglur verða að gilda fyrir þær allar. Ég get að vísu séð ýmislegt í fjárlögunum sem mætti missa sín en allt er gert af góðum ásetningi. Ég held að okkur finnist flest af því sem peningar eru lagðir í þar nauðsynlegt og gott. Það breytir því ekki að ef við ætlum að koma okkur á þann stað þar sem lífskjörin eru best í heiminum þá gerum við það ekki án þess að vera með aga á ríkisfjármálunum. Það er forsenda stöðugleika. (Forseti hringir.) Við þurfum að ræða málin út frá þeim forsendum, virðulegi forseti.