145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:11]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að koma hingað og tala í máli sem tókst að mynda þokkalega sátt um. Ég vil byrja á að segja að það var virkilega gaman að vinna að málinu í umhverfis- og samgöngunefnd, maður er búinn að læra mikið. Þetta er mikilvægt málefni og gaman að fá að koma að því að móta stefnuna um hvernig maður verndar eitt af því mikilvægasta sem við höfum, náttúru Íslands, sem allt hér á landi byggist á einn eða annan hátt á.

Það er oft sagt að séu allir sæmilega ásáttir þá sé komin niðurstaða. Ég held að það eigi alveg við hér. Það eru allir svona nokkuð sáttir, ég held að alveg megi segja það. Maður sá kannski glitta í þau nýju stjórnmál sem allir eru að kalla eftir að eigi að vera, að vinna saman þvert á flokka. Ég varð ekki mikið var við flokkspólitískar deilur í þeirri vinnu, heldur frekar svona umhverfispólitískar deilur og það ekki á milli flokkanna heldur umsagnaraðila og hagsmunaaðila. Það var oft gaman að sjá hvernig það var og kannski margt af því hafði maður ekki áttað sig á að væri til, að aðilar sem allir kalla náttúruverndarsinna kalli hvor annan umhverfissóða, þótt það hafi kannski ekki verið beint þannig, en ég segi þetta til að lýsa því hvernig maður upplifir það, án þess að fara í nein dæmi um það.

Ég held að grunnurinn að því sem við höfum náð að mynda að sátt um lögin sé sá að búið er skýra þau nánar, það er ekki einhver óvissa sem hægt er að túlka hver eftir sínu höfði. Lengra hefur verið gengið í því að ræða málin og vita hvað eitt og annað þýðir og leiðrétta þannig að það skiljist hvað átt er við og hvernig á að vinna með það ef fólk ætlar að nýta náttúruna á tilteknum stað eða hvernig það ætlar að vernda hana. Það er þá sagt hvernig það er og hvað það þýðir. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Þetta á kannski helst við um varúðarregluna. Það var alveg skýrt um hvað hún átti að snúast, en eins og hún var útfærð var kannski á mörgum stöðum þannig að ekki var alveg ljóst hvernig hún átti að virka og hvernig átti að fara eftir henni. Það hefði getað farið að kosta miklar málalengingar sem hefðu kannski ekki skilað neinni raunverulegri niðurstöðu. Núna komumst við að því hvernig við gátum gert hana skýrari, hún mundi virka og allir vissu hvernig spila ætti eftir henni. Það var kannski það sem sameinaði umhverfissinnana og framkvæmdasinnana, eins og oft hefur komið fram, að þetta væri rétta leiðin. Ég held að allir vilji ganga vel um náttúruna en þurfa bara að vita hverjar leikreglurnar eru, þannig að hægt sé að gera það í sátt og henni sé það örugglega til hagsbóta. Við sjáum náttúrlega alltaf meira og meira hversu mikils virði náttúran er og þess vegna held ég að allir muni sameinast um að vernda hana. Náttúran var því í forgrunni í okkar vinnu og það var mikilvægt.

Þetta var mikill línudans og hann var á mörgum sviðum. Má þar nefna almannaréttinn, hann er í línudansi við eignarréttinn. Þá komum við líka að atvinnufrelsi. Ef almannarétturinn er orðinn of ríkur, hvort menn gætu þá verið að byggja upp atvinnuréttindi eða skerða atvinnumöguleika einhverra. Við ætlum að búa í þessu landi; hvað má þá ganga langt í boðum og bönnum, þannig að þjóðfélagið nái að þróast? En svo má líka ekki ganga of langt á náttúruna þannig að ekki verði orðið jafn byggilegt hérna. Þetta þurftum við allt að hafa í skoðun í vinnu okkar og það var grunnurinn að því að við komumst að niðurstöðu.

Ég nefndi almannaréttinn sem kom oft við sögu. Almannarétturinn er öllum Íslendingum kær, að menn geti notið náttúrunnar og geti farið um landið og notið þess frelsis sem við höfum alist upp við. Við viljum alls ekki missa það frelsi. Þá þurfum við ef til vill að spyrja þeirrar spurningar: Er ekki eðlilegt að skerða þennan almannarétt til þess að tryggja hann í sessi? Almannarétturinn mótaðist þegar Íslendingar voru innan við 50 þús. en samgöngukerfið var ekki jafn vel uppbyggt og er í dag. Svo fjölgaði okkur í ríflega 330 þús. og búið er að byggja upp samgöngukerfið og annað slíkt, þannig að markmiðum sem almannarétturinn á að ná hefur sem sagt verið náð á annan hátt. En á sama tíma fjölgar ferðamönnunum töluvert. Það er eins og að rúm íbúatala Akureyrarbæjar sé á hverjum degi á Íslandi sem ferðamenn. Ágangurinn á náttúruna sem við viljum verja er því orðinn töluvert mikill. Við þurfum því að finna lausn á því á einhvern hátt.

Við erum þar líka að glíma við atvinnuréttindin sem eru stjórnarskrárvarin og eignarréttinn sem er líka stjórnarskrárvarinn, en það er almannarétturinn ekki beint, ekki enn þá alla vega. Við þurfum að fara rétta leið til að takmarka þá tortryggni sem er að myndast þarna að ég segi, með svona mikilli fjölgun ferðamanna, þar sem aðilar eru að byggja upp atvinnu sína á eignarlöndum annarra sem oft getur leitt til átroðnings á náttúrunni o.s.frv. Ég held að öllum; ferðaþjónustunni, landeigendum og hinum almenna íbúa landsins sem hefur alist upp við almannaréttinn, sé þarna fundinn einhver farvegur og millivegur, sem því miður var ákveðið að gera ekki í þessari atrennu.

Þess vegna tel ég mikilvægt að benda á að 18. gr. laganna nr. 60/2013 verði breytt í sama horf og 14. gr. núgildandi náttúruverndarlaga er, þannig að við höldum almannarétti eða ástandinu algjörlega óbreyttu. Það er hvorki verið að auka almannarétt né skerða almannarétt með þeirri breytingu sem nefndin leggur til á 18. gr. náttúruverndarlaga, nr. 60/2013. En við viljum kannski benda á að þó er þar inni ný grein, 29. gr., sem gefur Umhverfisstofnun visst úrskurðarvald. Það er mjög óeðlilegt ef því úrskurðarvaldi verður beitt á einhvern annan hátt en hefur tíðkast hingað til á meðan verið er að skoða almannaréttinn í þessu ljósi. Mikið var talað um hversu há upphæðin er sem hægt er að setja í dagsektir, þ.e. heimild Umhverfisstofnunar til að beita dagsektum. Þá finnst mér liggja alveg ljóst fyrir að það er fyrir brot á hvers konar athöfnum í lögunum öllum, og þá getur skerðing á almannarétti, þegar verið er sem sagt að vernda landið, ef það er til þess, þá töpum við ekki neinu úr náttúrunni heldur er verið að verja náttúruna. Slík takmörkun getur verið umdeild og er umdeild. Það getur aldrei orðið til þess að lagðar verði á allt að 500 þús. kr. dagsektir á hverjum degi. Þannig lít ég á 29. gr., að ekki sé hægt að misnota hana.

Varðandi þetta tókum við samt aðeins á almannaréttinum varðandi það hvar hægt verði að tjalda, og á svokölluðum „kamperum“ eða húsbílum og tjaldvögnum og öðru slíku. Ég held að það hafi verið mikilvægt til að koma á ákveðinni stýringu og reglu á hvar er gist og hvar gist er úti í náttúrunni með því sem því fylgir, rask, rusl og annað slíkt án þess að fara dýpra í það.

Inn í þetta kemur svo alls staðar varúðarreglan sem ég kom aðeins inn á áðan, og er mikilvægt hvernig útfærð er núna. Ég tel mjög mikilvægt að alls staðar — hvort sem það varðar þær heimildir sem gefnar eru varðandi utanvegaakstur eða bara hvaða framkvæmdir sem eru, hver og einn, landeigendur eða þeir sem fara um náttúruna og nota þau réttindi sem þeir hafa í almannaréttinum, utanvegaakstrinum eða framkvæmdahliðinni eða hvað sem er — hafi menn varúðarregluna alltaf bak við eyrað, hugsi: Hvernig ætla ég að fara um landið mitt, hvernig get ég tryggt að ég verndi náttúruna sem best? Ég held að lög nái einhvern veginn ekki að koma þessu fram. Þetta er svona menningarbreyting. Við þurfum bara að koma því inn í undirmeðvitundina hjá öllum hversu mikilvæg náttúran er og hversu viðkvæm hún er. Ég hef trú á því hvað varðar til dæmis utanvegaaksturinn, það eru margir sem hafa sjálfsagðar heimildir til utanvegaaksturs, eins og lögreglan og björgunarlið við vissa neyðarbjörgun og þegar gert er við línulagnir og annað, ég er alveg fullviss um að hver einasti starfsmaður þar sé meðvitaður um hvernig best sé að standa að slíkum utanvegaakstri til að lágmarka tjón. Hann gerir það. En áttar hann sig á því í öllum tilfellum hvað það þýðir að keyra utan venjulegs vegar? Getur það þýtt einhvers konar umhverfisspjöll sem eru ekki sjáanleg strax? Ég hvet því alla sem hafa þær heimildir, eins og í utanvegaakstrinum, að kynna sér þetta. Við þurfum að koma því einhvern veginn inn hjá þessum stofnunum að það sé kynnt og þetta sé svolítið „adressað“ án þess að það standi einhvers staðar beint í lögunum. Við þurfum að reyna að höfða til samvisku fólks og gera þetta svolítið sjálf þannig að ekki þurfi að setja allt í lagasetningu hvernig á að ganga um. Mér finnst það mikilvægt af því að utanvegaaksturinn hefur komið mikið til umræðu og er kannski það sem stendur helst út af í þessu samkomulagi.

Ég get alveg tekið undir að það ákvæði gæti verið skýrara og hægt væri að koma því í fastari skorður af því að allir eru sammála um hver endanlega niðurstaðan á að vera, en þetta tekur bara til svo margra fjölbreyttra aðila, mismunandi aðstæðna og búið að vera svo lengi í vinnslu. Ég held því að varhugavert sé að hræra mikið í því núna, en ég vil segja: Við skulum reyna að gera okkar besta til að láta þetta fara allt saman vel fram.

Ég trúi ekki að neinn fari að misnota þær heimildir sem hann hefur. Ég hef ekki séð það gerast, að innlendir aðilar sem hafa þær og ganga dagsdaglega um náttúruna hafi verið að misnota þær heimildir hingað til. Ef einhverjir hafa gert það vona ég að þeir hætti því hér eftir. Vandamálið hefur kannski verið að gestir okkar hér í landi, ferðamenn, eru ekki upplýstir, eru kannski með rangar upplýsingar og annað slíkt, það er stóra verkefnið varðandi utanvegaaksturinn.

Varðandi utanvegaaksturinn og skilgreiningu á óbyggðum víðernum í 19. tölulið 5. gr. núgildandi laga, hvað þar á að vera, þá hafa margir haldið að verið sé að skerða ferðafrelsi, en þar stendur sem sagt; þar sem ekki nýtur vélknúinna farartækja, það sé hluti af skilgreindu óbyggðu víðerni. Það verður að vera ljóst. Svo eitthvað sé skilgreint sem óbyggt víðerni er það einn flokkur friðlýsingar sem fer fram samkvæmt 46. gr. náttúruverndarlaga, að gerð er viss áætlun og tilgreint hvað það er eftir mikið samráðsferli. Það er eitt sem búið er að auka svolítið í þessum lögum, þ.e. samráðsferli, mat og annað sem fer fram. Þessi orðskýring á óbyggðum víðernum er ekki þannig að umferð vélknúinna ökutækja sé sjálfkrafa bönnuð einhvers staðar í dag. Það þarf fyrst að fara fram friðlýsing sem fer í gegnum visst ferli, þar þarf að taka ákvörðun hvort vélknúin umferð verði bönnuð að ekki. Þar fyrir utan er í 41. gr. náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, hægt að fá undanþágur frá þeirri friðlýsingu sem hefur farið fram. Ég tel því að þetta sé mjög langt frá því að skerða ferðafrelsi, það mun þá vera einhver langur aðdragandi að því og annað slíkt með aðkomu allra hagsmunaaðila. Ég tel mjög mikilvægt að þetta komi fram.

Það er margt svona sem þarf að lesa í lögin. Þetta er ekki allt einfalt. Það eru töluverðar breytingar, en ég held að við höfum rætt þetta það mikið og reynt að fara í gegnum mörg svona atriði að ég held að við ættum að finna sameiginlegan grundvöll í flestum ákvæðunum.

Hvað varðar framandi lífverur þá var það eitt sem var rætt mikið. Ég held að ljóst sé, hvernig sem það er orðað í nefndarálitinu, að allt í lagi sé að skoða hvort hægt væri að gera það skýrara. En þá var það niðurstaða nefndarinnar að sérfræðingar þyrftu að koma að því að ákveða og taka lokaákvörðun um hvað sé framandi lífvera og hvað ekki en einni stofnun sé ekki falið það vald algjörlega. Þar var horft til norskrar löggjafar. Ég held að við munum halda okkur við það hvort sem við breytum textanum í nefndarálitinu. Við verðum einfaldlega að skoða það.

Svo er annað sem rætt var og lögð fram breytingartillaga um, það varðar hærri sektir við því að dreifa rusli um landið. Það er náttúrlega atriði sem passar algjörlega að þessu máli þar sem við erum að reyna að vernda landið. Við erum með varúðarregluna og utanvegaakstur og við tölum um þrengri reglur til að stýra þessu varðandi tjöldin og annað. Þetta er allt sem við sjáum í náttúrunni, en það er einn og einn sem gerir mistök í umgengninni. Við höfum ekki haft svigrúm eða færi á að ræða það mikið í nefndinni. En ég tel mjög mikilvægt að málið komist áfram og er sjálfur flutningsmaður að því og legg til að það verði sett í þann farveg af því að mikil vinna mun halda áfram eftir að lagafrumvarp þetta verður samþykkt á morgun, vonandi, hvað varðar almannaréttinn og eins að fylgjast með innleiðingu varúðarreglu og fleira.

En varðandi varúðarregluna, innleiðinguna á henni, verðum við samt að segja að flest löggjöf sem kemur að náttúrunni, að umhverfismálum, er með annaðhvort innbyggða varúðarreglu eða verður til út af varúðarsjónarmiðum. Til dæmis er varúðarreglan orðuð bara beint í lögunum um framandi lífverur sem koma oft til skoðunar þegar verið er að virkja til dæmis á jarðhitasvæðum. Svo eru lögin um mat á umhverfisáhrifum. Það er hreinlega heil löggjöf um það hvernig við erum með varúðarregluna í framkvæmd. Þar er sagt hvað þarf að gera og hvaða mótvægisaðgerðir þurfi að gera þegar verið er að meta einhverja framkvæmd. Þau lög eru til. Við breytum þessu í skipulagslögum og mannvirkjalögum núna, snertir einnig byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi, þannig að varúðarreglan er eiginlega orðin innleidd í íslenskan rétt að fullu, tel ég. En að sjálfsögðu er eðlilegt að fylgjast með því.

Hægt væri að koma inn á mörg önnur atriði í viðbót varðandi þetta mál, en ég held ég hafi farið yfir þau helstu og þær vangaveltur sem þurfa útskýringa við eða það sem ég hef verið að fá viðbrögð við, að ekki eru allir enn þá búnir að átta sig alveg á þessu. Það er bara eðlilegt að margir séu með spurningar og að allir hafi ekki fengið sitt fram. En ég held að við getum öll verið sátt og verið tiltölulega róleg að hér eru ekki neinar öfgar á leiðinni.

Ég þakka fyrir skemmtilega vinnu og vona að við náum að lenda málinu með góðri sátt og að þetta séu vinnubrögð sem við munum tileinka okkur á Alþingi. Ég vil benda á að vonandi verður þetta eitthvað sem við nýju þingmennirnir getum kallað að hafi komið með okkur.