145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsnæðisbætur.

407. mál
[20:05]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ræðu. Ég kem kannski ekki beint upp í andsvar heldur kem ég til að fagna því í stuttu máli að umrætt frumvarp er komið fram. Ég átti sæti í verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála sem umrætt frumvarp er meðal annars byggt á. Það er verulega ánægjulegt að sjá þegar mikil vinna og mikið samráð hefur farið í þessa hluti. Það birtist okkur hv. þingmönnum og landsmönnum öllum í frumvarpinu.

Það sem ég vil annars fagna er að við erum, eins og hæstv. ráðherra benti á, að auka verulega stuðning við efnaminni leigjendur. Það er verulega jákvætt og algerlega í samræmi við það sem ríkisstjórnin hefur ætlað sér í húsnæðismálum. Það sem er mjög mikilvægt er að það er verið að jafna stuðning á milli ólíkra búsetuforma. Það er einstaklega mikilvægt, eins og kom jafnframt fram í ræðu hæstv. ráðherra, vegna þess að íbúum á leigumarkaði hefur fjölgað mikið. Húsnæðiskostnaður leigjenda hefur aukist undanfarin ár og því er mjög mikilvægt að jafna stuðning á milli þessara kerfa þannig að leigjendur sitji við sama borð og þeir sem búa í eigin húsnæði. Þetta er verulega gott. Við sjáum að árið 2008 voru 12,9% heimila á leigumarkaði en nýlegar tölur sýna aukningu upp í 20,8% þannig að ég bara fagna verulega að þetta sé komið fram. Málið verður síðan tekið til (Forseti hringir.) góðrar og efnislegrar vinnslu í velferðarnefnd þingsins.