145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og fyrir að minna okkur á að með því að gangast undir barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna höfum við líka samþykkt að taka allar ákvarðanir og meta þær út frá þörfum og hag barna.

Það er augljóst að aukin áfengisneysla mun ekki bæta hag barna sem búa á heimili þar sem er of mikil neysla fyrir. Eins og ég sagði áðan hafa menn haldið því fram í þessum þingsal að með því að færa áfengið í matvöruverslanir muni neyslan ekki aukast svo mikið, hún muni bara aukast um 1–2% sem er minni háttar aukning að þeirra áliti. En hvert prósent sem bætist við þá neyslu sem fyrir er er miklu afdrifaríkara en fyrri prósent. Það skilur jafnvel á milli hófdrykkju og ofdrykkju. Ég þarf ekkert að fara yfir það hér, við vitum það, að vanlíðan barna sem alast upp hjá foreldrum sem neyta áfengis í óhófi er mikil.

Ég var á þessari kynningu í dag á skýrslu UNICEF um efnislegan skort barna. Það er ýmislegt í þeirri skýrslu sem við þurfum að taka betur til athugunar og sameinast um að bæta. Ofan á efnislegan skort ættum við ekki að taka ákvörðun um að auka vanlíðan barna og unglinga vegna aukinnar drykkju aðstandenda.