145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hinn ágæti hv. þingmaður sem hér lauk ræðu sinni, sem ég þakka fyrir, kveinkaði sér nokkuð undan því að hann væri ásakaður um að vilja auka ýmsa sjúkdóma. Ég held að þingmaðurinn þurfi nú ekki að kveinka sér undan þessu. Hitt er svo annað mál — hafi hann lesið allar umsagnir sem borist hafa um þetta mál, frá landlækni, WHO, Barnaheillum, hjúkrunarfræðingafélaginu, læknafélaginu, þá vara öll þessi félög við þessu. Þó að ég sé mikið fyrir að taka sjálfstæðar ákvarðanir hlusta ég yfirleitt á fagfólk. Ég rífst ekki við múrara um það hvernig hann vill múra vegg því að hann hefur meiri þekkingu á málinu en ég. Þess vegna rífst ég ekki um áhrif áfengisdrykkju við Læknafélag Íslands, hjúkrunarfræðingafélagið, sálfræðingafélagið, við Barnaheill — ég rífst ekki við þetta fólk, ég beygi mig fyrir rökum. Það er næsta víst að ef við samþykkjum þetta frumvarp mun neysla áfengis vaxa hér með ótilgreindum afleiðingum.