145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

embætti umboðsmanns aldraðra.

14. mál
[16:03]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það, tillagan er afar góð og ég styð að hún komi fram. Ég vil gjarnan sjá þetta embætti umboðsmanns verða að veruleika og tek undir margt sem kom fram í orðum þingmannsins, m.a. að ekki eiga allir bakland sem getur stutt þá í því flókna ferli að takast á við lífeyriskerfið sem við förum inn í þegar við eldumst. Ég minni á að við vinstri græn eigum eitt gott mál í þinginu sem einmitt hefur ekki fengist mælt fyrir og snýr að því að fólk geti búið saman á dvalarheimilum þegar annar aðilinn er orðinn veikur og þarfnast aðstoðar og getur ekki verið heima. Eins og við vitum hefur almennt ekki verið í boði að makinn geti verið með.

Hverjir eiga að hafa umboðsmann? Eiga öryrkjar að hafa umboðsmann? Það skiptir svolitlu máli hvernig við förum með þetta og það gæti orðið tregða í kerfinu. Við þurfum að hugsa um að aðrir eru líka að berjast við kerfið ef við getum sagt sem svo. Þess vegna finnst mér það skipta máli og spyr hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér að við verðum með mjög marga umboðsmenn, eða hvaða málaflokkar telur hann helst að eigi heima þar undir?