145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

endurskoðun reglugerða varðandi hjálpartæki.

519. mál
[16:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég tek heils hugar undir þau sjónarmið sem hér hafa komið upp varðandi flækjustigið. Það er oft þannig að við lendum á gráum svæðum á milli heilbrigðisþjónustu annars vegar og síðan félagslegrar þjónustu um atriði sem lúta að Tryggingastofnun eða ríkiskerfinu og síðan málefnum sveitarfélaga. Oftar en ekki er sjónum fyrst beint að heilbrigðisþættinum, ég veit ekki ástæðuna fyrir því, en það er eitthvað sem er bara innbyggt í okkur að horfa fyrst þangað. Ég tek undir þau sjónarmið að þetta þarf að gera.

Hv. þingmaður spurði hvort búið væri að skoða reglugerðina með tilliti til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það þekki ég ekki (Gripið fram í: Skoða það.) en ég heiti því að skoða það, spyrjast fyrir um það. Við endurskoðun og endurnýjun reglugerðarinnar hefur verið stuðst við þekkingu og reynslu þess fólks sem hefur unnið við málaflokkinn gegnum tíðina. Ég er ekki að reyna að halda því fram að það verk sem reglugerðin leiðir af sér sé meitlað í stein, langur vegur frá. Ég lýsi mig reiðubúinn til þess að taka við ábendingum og sjónarmiðum og bera þau upp við mitt fólk sem vinnur með málaflokkinn. Það er enginn vilji þar til þess að flækja hlutina um of. Það eru einhverjar ástæður fyrir því að þetta er gert með þeim hætti sem í reglugerðinni greinir og þá er að finna skýringar á því og reyna að fella það að æskilegri veruleika ef hægt er að gera það án mikilla harmkvæla. Ég þakka umræðuna og allar ábendingar um úrbætur sem hægt er að gera í þessu máli.