145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

Hús íslenskra fræða.

[15:18]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst smáathugasemd um það sem hv. þingmaður ræddi í byrjun en sagðist þó ekki ætla að ræða, þ.e. stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Það var nefnilega ekki svo að endalausar skattahækkanir síðustu ríkisstjórnar hefðu skilað meiri verðmætasköpun og meiri tekjum eins og ráð var fyrir gert. Þvert á móti drógu þær allan þrótt úr atvinnulífinu akkúrat þegar tækifæri var til þess að ná uppsveiflu á ný eftir verulega niðursveiflu.

Nú hefur breytt stefna í efnahagsmálum, meðal annars í skattamálum með jákvæðum hvötum, orðið til þess að tekjur ríkissjóðs hafa aukist til mikilla muna. Það skapar aukin tækifæri fyrir okkur til þess að ráðast í hin ýmsu verkefni.

Hvað varðar það tiltekna verkefni sem hv. þingmaður spyr um þá er ég, eins og ég gat um áðan, bjartsýnn á framgang þess. En að sjálfsögðu verður það skoðað í samhengi við önnur verkefni og ríkisfjármál almennt. (KJak: Hangir á samstarfsflokknum?)