145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

framlög í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands.

212. mál
[15:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég er dálítið hlessa á þeim tíðindum sem mér fannst hæstv. forsætisráðherra vera að færa okkur hér sem voru í raun og veru þau að Aldarafmælissjóðurinn hefði verið sleginn af, að í tilefni af því að unnið væri að stefnumótun í mennta- og menningarmálaráðuneytinu um fjármögnun háskólastigsins væri horfið frá þeirri vinnu sem samþykkt var að ráðast í á Alþingi um Aldarafmælissjóðinn með fjármögnun til 2020. Þetta eru ákveðin tíðindi sem hæstv. forsætisráðherra færir okkur.

Ég velti fyrir mér hvað það þýðir í ljósi þess að þessi stefnumótun heyrir ekki beint undir hæstv. forsætisráðherra. Munum við þá sjá Aldarafmælissjóðinn sleginn af í næstu fjárlögum en í staðinn verður komin ný stefnumótun um fjármögnun háskóla og kemur hún á einhvern hátt í veg fyrir það að sjóðurinn starfi áfram samkvæmt því sem hér var ákveðið? Mér finnst þetta ákveðin tíðindi, herra forseti. Ég hefði talið eðlilegt að frá þessu hefði verið greint í tengslum við fjárlagaumræðuna síðast þar sem töluvert var eftir því spurt. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Eigum við að skilja það sem svo að ekki sé stefnt að því að auka framlög í sjóðinn eins og áður var ákveðið vegna vinnu við stefnumótun í mennta- og menningarmálaráðuneytinu? Eigum við þá von á henni á næstu dögum?