145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[16:52]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er þetta með skilgreininguna á skattaskjólum. Eins og ég sagði áðan er það ekki hlutverk hæstv. forsætisráðherra að ákveða hvaða lönd tilheyra skattaskjólum. Skattrannsóknarstjóri hefur sagt að hún geti ekki sannreynt upplýsingar sem eru þó ein helsta vörn forsætisráðherra í sínu máli.

Indefence vill að hæstv. forsætisráðherra víki. Af hverju? Af því að það er ótækt að forsætisráðherra Íslands eigi fjármuni í skattaskjóli og sé kröfuhafi, eða hans fjölskylda. Einu sinni tilheyrði hv. þingmaður og hæstv. forsætisráðherra þessum hópi og fór mikinn en röksemdafærsla þeirra hentar honum greinilega ekki núna. Ef þetta er svona saklaust allt saman, hví skyldu þá uppljóstranir á þessum 11 milljónum skjala valda svona miklum usla? Af hverju hafa þjóðir heims áhuga á forsætisráðherra Íslands? Það er vegna þess að á meðan þjóðin (Forseti hringir.) situr hér í gjaldeyrishöftum hefur hæstv. forsætisráðherra og spúsa hans ákveðið að ávaxta sitt fé í skattaskjólum og segja engum frá því fyrr en þau voru nauðbeygð til þess. Þau gerðu það ekki af fúsum og frjálsum vilja.