145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er mikilvægt að halda því til haga að það var Bjarni Benediktsson sem boðaði til kosninga. Það var Bjarni Benediktsson sem ætlaði að stytta kjörtímabilið um eitt þing. Það var ekki minni hlutinn og ekki fólkið úti á Austurvelli sem sagði það. Fólkið úti á Austurvelli kallaði eftir kosningum strax. Við höfum fylgt því eftir, minni hlutinn á þingi. Þegar meldingar koma svo úr báðum stjórnarflokkum um að nægjanlegt sé að kjósa næsta vor, þegar búið er að láta þau orð falla af hálfu hæstv. ráðherra að hér eigi að kjósa fyrr, er ekki óeðlilegt að við spyrjum okkur þegar ekki fæst uppgefin dagsetning: Er eitthvað að marka það? Það á að stytta þingið en samt á að þjappa málaskránni saman og taka allt fyrir meira og minna á vori, mál sem ekki hafa komið fram, mál sem jafnvel er ekki búið að semja, og afgreiða á þessu þingi. Það er auðvitað mjög óeðlilegt. Traustið (Forseti hringir.) á þinginu er ekki falið í því að þeir ráðherrar sem eiga félög á aflandseyjum fari fyrir þinghaldinu.