145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

kosningar í haust.

[11:48]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega augljóst eins og kom fram fyrr í dag að ríkisstjórnin er á undanhaldi. Hún er að reyna að skipuleggja það undanhald með því að fresta kosningum fram í október og hafa loðin svör og er augljóslega að gæla við þá hugmynd að geta frestað kosningum enn lengur. Það er ekki að ástæðulausu sem stjórnarandstaðan efast um þau loforð og hefur illa grun um að það standi jafnvel ekki til að standa við þau.

Eins og hér kom fram þá talaði hæstv. fjármálaráðherra um að stytta kjörtímabilið um eitt þing. Það þýðir auðvitað að ekki er hægt að fresta kosningum lengur en fram í fyrstu viku september. Ríkisfjármálaáætlun þarf að leggja fram. Það væri eitthvað sem væri kannski hægt að ná samkomulagi um að mínu viti, án þess að ég tali fyrir hönd nokkurs nema sjálfrar mín, ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um að leggja hana fram, (Forseti hringir.) kynna hana svo að áherslurnar í fjármálunum sjáist fyrir haustið, rjúfa síðan þing og efna til kosninga. (Forseti hringir.) Það eru engin önnur verkefni sem þetta þing þarf að leysa því að allt sem hér hefur verið talið upp væri betur komið í höndum annarra en ríkisstjórnarinnar.