145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

breytingar á útlánareglum LÍN.

[15:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er á svipuðum nótum og tveir síðustu hv. þingmenn. Ég vil aðeins minna hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra á það hve veik krónan var. Hún féll, manstu, haustið 2008 og það hafði áhrif á kjör námsmanna erlendis. (Menntmrh.: … lánið …) Menntun hvers einstaklings er honum afar verðmæt og verður ekki frá honum tekin. Menntun er verðmæt, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. Þess vegna er alvarlegt mál ef færri fara til náms hér á landi en þess óska. Eftir síðustu ákvarðanir Lánasjóðs íslenskra námsmanna eru einmitt uppi efasemdir um jafnrétti til náms og menn spyrja hvort menntun sé orðin eins konar munaður sem standi í sumum tilfellum aðeins þeim efnameiri til boða.

Fulltrúar stjórnar Sambands íslenskra námsmanna erlendis skrifuðu um málið í Fréttablaðið á dögunum. Þeir fullyrða að með ákvörðun LÍN um breytingar á úthlutunarreglum eigi ekki einu sinni að gefa núverandi námsmönnum erlendis tækifæri til að klára nám sitt áður en skerðingin nær til lánanna. Þeir nefna dæmi af nemanda í London sem sér fram á að þurfa að hætta í námi til að koma heim og vinna fyrir þeim peningum sem hann hefur fengið lánaða nú þegar. Annar nemandi í London sér fram á að þurfa að taka lán á miklu hærri vöxtum hjá nýja einkarekna lánasjóðnum eigi hann að geta klárað gráðuna sína. Læknanemi í Slóvakíu sér fram á að þurfa að nota skert framfærslulán upp í skólagjöldin þar sem þak er á því hversu mikið LÍN lánar fyrir skólagjöldum.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvað hann segi um fullyrðingar fulltrúa í stjórn Sambands íslenskra námsmanna erlendis. Telur hann (Forseti hringir.) að þeir fari með rangt mál? Rengir hann þau dæmi sem fulltrúarnir nefna?